Heilbrigðisráðherra Noregs segir það ómögulegt fyrir þau lönd sem tóku þátt í samvinnuverkefni Evrópusambandsins (ESB) um kaup á bóluefnum gegn COVID-19 að semja beint við bóluefnaframleiðendur, þar sem slíkir samningar geti eyðilagt samstöðu Evrópulandanna.
Þetta kemur fram í frétt norska ríkisútvarpsins, NRK, sem birtist í dag. Samkvæmt fréttinni hvatti Ingvild Kjerkol, talskona Verkamannaflokksins (Arbeiderpartiet) í heilbrigðismálum, norsk heilbrigðisyfirvöld til að verða sér úti um meira bóluefni hraðar, en einungis 40 þúsund skammtar af bóluefninu hafa nú borist til landsins.
„Við ættum algjörlega að hugleiða eigin kaupsamninga á bóluefni utan samningsins við ESB, ef það er mögulegt,“ sagði Kjerkol og bað ríkisstjórnina um að svara hvort núverandi samningur gefi Norðmönnum möguleika á að standa í eigin samningaviðræðum.
Verkamannaflokkurinn, sem situr ekki í ríkisstjórn, fékk hljómgrunn í þinginu víðar úr stjórnarandstöðunni. Marit Arnstad, þingkona Miðflokksins (Senterpartiet), segir að reynsla Kanadamanna, Ísraela, Breta og Mexíkóbúa sýni að hægt sé að tryggja bóluefni án samninga við Evrópusambandið (ESB) eða Evrópska efnahagssvæðið (EES).
Hins vegar segir heilbrigðisráðherra Noregs, Bent Høie, að það sé ekki mögulegt fyrir Noreg að semja við Pfizer eða aðra bóluefnaframleiðendur beint, utan samvinnuverkefnis Evrópusambandsins. „Samningurinn sem við höfum við Evrópusambandið felur í sér að hér sé samstaða. Þá geta löndin ekki samið út af fyrir sig og keppst hvert við annað og eyðilagt samstöðuna þannig. Norska ríkisstjórnin velti upp þessum möguleika, en mættu litlum áhuga fyrirtækjanna þar sem þau höfðu ekki getuna í að semja við stakt land af álíka stærðargráðu og Noreg,“ hefur NRK eftir Høie.
Samkvæmt heilbrigðisráðherranum nýtur Þýskaland þó ákveðinna sérréttinda í þessu samstarfi, þar sem landið byrjaði snemma að semja við bóluefnaframleiðendur, auk þess sem einn framleiðendanna, BioNTech, er þýskt fyrirtæki.
Þrátt fyrir það segir Høie að bólusetningarnar komi til með að ganga hraðar en búist var við fyrir stuttu síðan, en hann reiknar með að Norðmenn muni ná að bólusetja alla áhættuhópa þar í landi innan þriggja mánaða. Einnig vonast hann til þess að allir Norðmenn sem vilja verði bólusettir innan sex mánaða.