Einungis 2,56 prósent hluthafa Skeljungs tóku yfirtökutilboði fjárfestahópsins Strengs sem lauk í gær. Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður Strengs hf. og Skeljungs hf. segist þakka núverandi hluthöfum sem tóku ekki tilboðinu fyrir traustið sem þeir sýna fjárfestahópnum fyrir framtíðarrekstri Skeljungs.
Þetta kemur fram í tilkynningu á Kauphöllinni sem kom út í dag. Samkvæmt henni fór Strengur hf. og tengdir aðilar með 38 prósent atkvæða fyrir yfirtökutilboðið og hefur hlutur þeirra nú stækkað í 41,6 prósent eftir að leiðrétt hefur verið fyrir eigin hlutum.
Kjarninn greindi frá því í gær að lífeyrissjóðirnir, Gildi, Stapi, Birta, Festa, Lífsverk og Frjálsi, sem eru stærstu eigendur Skeljungs að Strengi undanskildum, hafi allir hafnað yfirtökutilboði hópsins. Samkvæmt talsmönnum flestra sjóðanna var meginástæða höfnunarinnar sú að tilboðsverðið hafi verið of lágt, en margir þeirra sögðust einnig vera mótfallnir yfirlýstum áformum Strengs um að skrá félagið af hlutabréfamarkaði á Kauphöllinni.
Í tilkynningunni sem birtist í Kauphöllinni virðist Jón Ásgeir hins vegar túlka það svo að þeir sem ekki tóku tilboðinu deili sýn fjárfestahópsins á framtíðarrekstur fyrirtækisins. „Með tilboðinu fengu þeir hluthafar sem ekki deildu þeirri sýn tækifæri til að selja bréf sín með álagi m.v. síðasta viðskiptadag fyrir gerð tilboðsins,” er haft eftir honum í tilkynningunni.
„Strengur þakkar öðrum hluthöfum það traust og þá trú sem þeir hafa á þeirri vegferð sem kynnt hefur verið. Strengur mun í krafti atkvæða sinna fylgja eftir þeirri sýn, öllum hluthöfum Skeljungs til hagsbóta," bætir Jón Ásgeir við.