Elon Musk, stofnandi og forstjóri rafbílaframleiðandans Tesla, varð í dag ríkasti maður heimsins eftir að hlutabréfaverð í fyrirtækinu hans hækkaði um meira en fjögur prósent í dag. Musk er metinn á 185 milljarða Bandaríkjadala, sem jafngildir 23 þúsund milljörðum íslenskra króna. Það er um það bil níföld landsframleiðsla Íslands árið 2019.
Musk tekur toppsætið af Jeff Bezos, stofnanda Amazon, en hann er metinn á um 184 milljarða Bandaríkjadala og hefur trónað á toppi lista hinna ríkustu síðan árið 2017. Ástæðuna má fyrst og fremst þakka hlutabréfaverði Tesla, en samkvæmt umfjöllun CBNC um málið rúmlega nífaldaðist hún á síðasta ári.
Kjarninn hefur áður fjallað um mikla og hraða hækkun hlutabréfaverðs Tesla, en ýmsir greiningaraðilar telja að fyrirtækið sé í miðri hlutabréfabólu.
Bílaframleiðandinn hefur þó skilað góðri rekstrarniðurstöðu á undanförnum ársfjórðungsuppgjörum, en hún er að miklu leyti framseljanlegum mengunarkvótum að þakka. Hlutabréfaverðið hefur haldið áfram að hækka á síðustu dögum, en í dag nam hækkunin um fjórum prósentum.
Enginn hefur klifið jafnhratt upp lista þeirra ríkustu í heimi og Musk, en hann var „aðeins“ metinn á 27 milljarða Bandaríkjadala fyrir ári síðan. Á 12 mánuðum hefur virði hans því aukist um 150 milljarða Bandaríkjadala, sem er meira en fjárhæðin sem Bill Gates, stofnandi Microsoft og fyrrum ríkasti maður heims, er metinn á.