Reykjavíkurborg hefur stefnt íslenska ríkinu og krefst þess að það greiði sér 8,7 milljarða króna auk vaxta og dráttarvaxta. Málið verður þingfest í lok mánaðar.
Ástæða kröfunnar er að borgin telur sig hafa verið útilokaða með ólögmætum hætti frá því að eiga möguleika á að fá ákveðin framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Um er að ræða tekjujöfnunarframlög, jöfnunarframlög vegna reksturs grunnskóla og framlög til nýbúafræðslu. Deilurnar snúa að uppistöðu að reglum sem útiloka borgina frá framlögum í skólamálum, t.d. vegna barna af erlendum uppruna, en þau eru langflest í Reykjavík (43,4 prósent erlendra ríkisborgara á Íslandi búa í Reykjavík).
Samanlagt metur borgin þá upphæð sem hún inni á 8,7 milljarða króna auk vaxta vegna tímabilsins 2015-2019.
Bréf sent í liðinni viku
Reykjavík sendi ríkislögmanni bréf 5. nóvember síðastliðinn og krafðist greiðslu á upphæðinni. Ef hún fengist ekki greidd myndi hún höfða mál.
Samkvæmt heimildum Kjarnans áttu sér stað þreifingar um sættir eða sáttaviðræður fyrir síðustu jól. Þær skiluðu ekki samkomulagi.
Þann 30. desember 2020 var íslenska ríkinu því birt stefna í málinu og að öllu óbreyttu verður málið þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 28. janúar næstkomandi.
Í bréfi sem Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, lagði fyrir borgarráð á fimmtudag, sem stílað er á Sigurð Inga og er dagsett 5. janúar, er því lýst yfir að Reykjavíkurborg sé viljug til viðræðna við íslenska ríkið um hugsanlegar sættir í málinu þrátt fyrir að búið sé að stefna. „Reykjavíkurborg hefur fulla trú á að slíkar viðræður geti skilað árangri og vonast til að ríkið nálgist málið af sama hug.“
Verði af þeim viðræðum munu borgarritari og borgarlögmaður annast þær fyrir hönd Reykjavíkurborgar.