Samtök iðnaðarins (SI) og Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK) telja drög að nýju frumvarpi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um kvikmyndastyrki til þess fallið að skerða samkeppnishæfni kvikmyndaiðnaðarins og ógna atvinnuöryggi innan hans.
Einnig segja samtökin að frumvarpið gangi gegn markmiðum opinberrar kvikmyndastefnu Íslands og hvetji til uppsagna á fastráðnu starfsfólki innan geirans. Þetta kemur fram í umsögn samtakanna um frumvarpið, sem birtist á samráðsgátt stjórnvalda síðastliðinn föstudag.
Kjarninn hefur áður fjallað um áðurnefnt frumvarp, en markmið þess er að endurgreiðslur til sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslufyrirtækja lúti skýrari reglum og séu bundnar strangari skilyrðum en áður. Verði frumvarpsdrögin að lögum mætti búast við þrengri skilgreiningu á þeim framleiðslukostnaði sem fyrirtækin gætu fengið endurgreiðslu fyrir, auk þess sem löggiltir endurskoðendur verði fengnir til að fara yfir uppgjör þeirra.
Gangi gegn markmiðum kvikmyndastefnu
Í umsögn sinni benda SI og SÍK á að fulltrúar stjórnvalda og atvinnulífsins hafi gefið út sameiginlega kvikmyndastefnu til ársins 2030 nýlega, en henni var ætlað að móta heildstæða stefnu fyrir kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu á Íslandi.
Samkvæmt samtökunum kemur fram í stefnunni að endurgreiðslukerfi kvikmyndagerðar á Íslandi þyki einfalt nú þegar og að stefnt skuli að því að varðveita kosti kerfisins og þróa það á þann veg að það standist alþjóðlega samkeppni á hverjum tíma. „Telja samtökin að drög að frumvarpi til breytinga á lögum um endurgreiðslur gangi að hluta gegn þessum markmiðum,“ segir í umsögninni.
Fastráðnum starfsmönnum sagt upp
Samtökin telja líka að fyrirhugað frumvarp myndi hvetja til uppsagna fastráðinna starfsmanna yrði það að lögum, þar sem ekki yrði lengur hægt að fá endurgreiðslu vegna launakostnað þeirra. Framleiðslufyrirtækið Sagafilm minntist einnig á þennan hluta frumvarpsdraganna í annarri umsögn sem birt er á samráðsgátt stjórnvalda, en Kjarninn fjallaði um þá umsögn í gær.
Atvinnuletjandi og veikir greinina
Með þrengri skilyrðum fyrir endurgreiðslu telja samtökin að verið sé að skerða samkeppnishæfni Íslands á sviði kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar á meðan atvinnuleysi sé sögulega hátt. „Hvatarnir sem ofangreindar breytingar hefðu í för með sér yrðu atvinnuletjandi á tímum þar sem brýnt er að fjölga störfum,“ sögðu samtökin.