Stjórnvöld, sem vonuðust áður til þess að ná hjarðónæmi gegn COVID-19 hérlendis fyrir marslok, hafa einungis tryggt 13 prósent af bóluefnaskömmtunum sem þyrftu til að það næðist. Ísland væri enn langt frá því að ná hjarðónæmi á fyrsta ársfjórðungi þótt allir skammtar Oxford-bóluefnisins kæmu hingað til lands fyrir marslok.
225 þúsund bólusettir til að ná hjarðónæmi
Líkt og Kjarninn greindi frá tilkynnti heilbrigðisráðuneytið í byrjun desember að gera mætti ráð fyrir að bólusetningar hefðust um síðustu áramót. Í tilkynningunni kom einnig fram að ráðuneytið vonaðist til þess að markmiðum bólusetningar yrði náð á fyrsta fjórðungi þessa árs, þ.e. að 75 prósent landsmanna sem fæddir eru eftir 2005 verði bólusettir. Til þess að hjarðónæmi næðist hér á landi þyrfti því að bólusetja um 225 þúsund manns.
Tæpum tveimur vikum seinna, þann 15. desember, birti svo ráðuneytið fyrstu tölurnar úr dreifingaráætlun Pfizer. Samkvæmt henni var gert ráð fyrir bóluefni fyrir tæplega 14 þúsund manns í janúar og febrúar á þessu ári, þ.e. einungis rúm sex prósent af magninu sem þarf til þess að ná hjarðónæmi. Í tilkynningu sinni sagði ráðuneytið að hráefnisskortur ylli því að áætlun Pfizer hafi raskast, en ekki er vitað hvernig upphaflega áætlunin hljómaði.
Á gamlársdag barst svo enn önnur tilkynning frá heilbrigðisráðuneytinu þar sem því var haldið fram þar sem að minnsta kosti 50 þúsund skammtar myndu berast til landsins frá Pfizer fyrir marslok, en þeir gætu dugað fyrir 25 þúsund manns.
Á upplysingafundi almannavarna sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir svo að Ísland myndi fá 10 þúsund skammta frá bóluefnaframleiðandanum Moderna á fyrstu þremur mánuðum ársins, líkt og RÚV greindi frá. Með þessu væri hægt að bólusetja fimm þúsund manns og því mætti gera ráð fyrir að 30 þúsund manns yrðu bólusett á fyrsta ársfjórðungi.
Líkt og sést á mynd hér að ofan er fyrirhugaður fjöldi bólusettra á fyrsta ársfjórðungi langtum minni en yfirvöld vonuðu upphaflega, en 30 þúsund eru einungis 13 prósent af þeim fjölda sem þyrfti að vera bólusettur til að hjarðónæmi næðist hér á landi.
Oxford-bóluefnið væntanlegt, en ekki nóg
Þessa stundina hefur Lyfjastofnun einungis samþykkt bóluefni frá Pfizer og Moderna, en stjórnvöld búast þó við að afhending þriðja bóluefnisins frá AstraZeneca, sem einnig er kallað Oxford-bóluefnið, muni hefjast á þessum ársfjórðungi. Lyfjastofnun hefur hingað til fylgt Lyfjastofnun Evrópu (EMA) eftir í leyfisveitingu, en líkt og mbl.is greindi frá í gær gæti sú stofnun veitt markaðsleyfi fyrir Oxford-bóluefninu þann 29. janúar.
Ísland hefur tryggt sér kaup á 230 þúsund skömmtum á bóluefninu, sem myndu duga fyrir 115 þúsund manns. Ef allir þessir skammtar myndu berast til landsins fyrir marslok væri þá hægt að bólusetja 145 þúsund manns, að meðtöldum bólusetningunum frá Pfizer og Moderna. Því myndi enn vanta bóluefni fyrir 80 þúsund manns til þess að hjarðónæmi hér á landi á fyrsta ársfjórðungi.