Ekkert smit hefur greinst á Landspítala til viðbótar við það eina sem greindist síðdegis í gær, hjá sjúklingi sem hafði verið inniliggjandi á hjartadeild. Allir inniliggjandi sjúklingar, 32 talsins, reyndust ekki með COVID-19 og einnig hafa niðurstöður liðlega 100 starfsmanna spítalans reynst neikvæðar. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá Landspítala.
Enn er beðið eftir einhverjum niðurstöðum frá starfsmönnum, en allt í allt þurfti að skima liðlega 180 einstaklinga fyrir veirunni eftir að smitið greindist í gær. Hjartadeildinni þar sem sjúklingurinn lá inni var lokað fyrir nýjum innlögnum.
Bráðum innlögnum hjartasjúklinga er í dag sinnt á öðrum legudeildum spítalans og öllum valkvæðum aðgerðum og göngudeildarheimsóknum á hjartadeild í dag hefur verið frestað.
Fyrir liggur að sjúklingurinn sem greindist smitaður í gær smitaðist inni á deildinni. Í tilkynningu sem Landspítalinn sendi frá sér í gærkvöldi sagði að sóttvarnalæknir hefði verið upplýstur um málið og unnið væri að smitrakningu innanhúss og meðal þeirra sem tengdust starfsemi hjartadeildarinnar eftir atvikum.
Í tilkynningunni voru nefndar ýmsar mögulegar útskýringar á því að COVID-19 smit hefði komið upp á deildinni, jafnvel þótt ítrustu sóttvarna og fyllstu varúðar og öryggis sjúklinga væri gætt.
Bent var á að mikill fjöldi starfsmanna starfi á deildinni sem séu virkir upp að vissu marki í samfélaginu. Einnig bætti spítalinn við að heimsóknir aðstandenda væru leyfðar upp að vissu marki.