Stefnt er að því að endurræsa kísilver PCC á Bakka í vor. Starfsemi þess var stöðvuð í sumar og um 85 starfsmönnum sagt upp. Rekstrarstöðvunin var sögð vegna kórónuveirufaraldursins sem hefði raskað heimsmarkaði með kísilmálm. Verð hefði lækkað mjög og eftirspurn minnkað.
Rúnar Sigurpálsson, forstjóri PCC BakkiSilicon hf., segir að í dag séu rúmlega fimmtíu starfsmenn á Bakka. Hluti þeirra er að vinna að endurbótum í kísilverinu, m.a. búnaði, og er ætlunin að ljúka þeim áður en til endurræsingar verksmiðjunnar kemur.
Í nóvember kom fram á Facebook-síðu fyrirtækisins að viðræður við birgja verksmiðjunnar varðandi endurræsinguna væru hafnar. Gott samstarf við birgja væri lykilatriði til að verksmiðjan gæti talist samkeppnishæf á heimsmarkaði. Þar kom einnig fram að hefja ætti endurráðningar „upp úr áramótum“. Það ferli er að sögn Rúnars ekki hafið en hann segir ljóst að flest allir þeir starfsmenn sem sagt var upp í sumar vilji koma til starfa á ný.
Rúnar segir við Kjarnann að „í þessu skrítna ástandi“ sem nú ríki vegna heimsfaraldursins hafi hann áhyggjur af mörkuðum fyrir kísilmálm en segir þá þó hafa verið að þróast í rétta átt að undanförnu sem gefi tilefni til bjartsýni.
Málin skýrast í apríl
Einn óvissuþáttur í því eru innflutningstollar sem bandaríska viðskiptaráðuneytið lagði á íslenskan kísilmálm á síðasta ári en Bandaríkin eru helsta viðskiptaland kísilversins á Bakka. Tollarnir voru lagðir á að kröfu bandarískra kísilmálmsframleiðenda sem héldu því fram að innflutningsverð á málmi frá Íslandi og fleiri löndum væri lægri en eðlilegt gæti talist. Það mætti rekja til niðurgreiðslna í framleiðslu (dumping). Rúnar segir málið í raun tvíþætt; annars vegar snerti það ákvörðun um refsitolla (anti dumping) og hins vegar skaðleysi (injury).
Forúrskurður ráðuneytisins um refsitolla lá fyrir í desember. „Sá úrskurður var okkur ekki hagstæður en lokaúrskurður mun birtast í febrúar,“ segir Rúnar. Úrskurður í skaðleysismálinu mun birtast í apríl. „Okkar áhersla hefur verið á að verja okkur í því máli. Úrskurður þar er endanlegur og verði hann okkur jákvæður snýr hann við niðurstöðu í refsitollamálinu.“
Kísilverið á Bakka hafði aðeins verið starfrækt í tvö ár er slökkt var í ofnum verksmiðjunnar í sumar. Rekstur verksmiðjunnar hafði verið erfiður allt frá upphafi og settu bilanir og þungar aðstæður á hrávörumörkuðum mark sitt á hann.
Verksmiðjan er í meirihlutaeigu þýska stórfyrirtækisins PCC SE, sem á 86,5 prósent hlut, en innlendir lífeyrissjóðir og Íslandsbanki eiga líka 13,5 prósent hlut í félaginu í gegnum fjárfestingafélagið Bakkastakk. Í apríl fjölluðu bæði Viðskiptablaðið og Fréttablaðið um að lífeyrissjóðir hefðu fært niður hlutafé sitt í Bakkastakki að öllu eða mestu leyti, vegna rekstraróvissunnar. Þá hafði þýska móðurfélagið skömmu áður lagt PCC á Bakka til um 40 milljónir Bandaríkjadala, meira en fimm milljarða íslenskra króna, í formi hluthafaláns, til þess að bæta lausafjárstöðu kísilversins og tryggja rekstrargrundvöll þess.