Helga Vala Helgadóttir þingmaður, Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka, Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður, Jóhann Páll Jóhannsson, fyrrverandi blaðamaður og núverandi starfsmaður Samfylkingarinnar, og Ragna Sigurðardóttir, forseti ungra jafnaðarmanna, lentu í fimm efstu sætunum í skoðanakönnun sem haldin var á meðal félaga í Samfylkingunni í Reykjavík í síðasta mánuði. Þetta er fullyrt í Fréttablaðinu í dag en niðurstöður könnunarinnar eiga ekki að vera opinberar heldur einungis aðgengilegar uppstillingarnefnd.
Skoðanakönnuninni er ætlað að veita uppstillingarnefnd flokksins, sem í sitja 17 manns, sýn á vilja flokksmanna í höfuðborginni þegar hún raðar á lista fyrir næstu kosningar. Nefndin er þó ekki bundin af niðurstöðunni.
Samkvæmt þessu mun Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður og núverandi oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, að öllum líkindum ekki vera í sæti á lista flokksins sem ætti möguleika á að koma honum á þing. Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, sem var í öðru sæti á lista flokksins í Reykjavík suður fyrir rúmum fjórum árum, nær heldur ekki inn á lista yfir fimm efstu menn. Það gera rithöfundurinn Einar Kárason og Eva H. Baldursdóttir, lögmaður og jógakennari, sem sátu í þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar í sitthvoru Reykjavíkurkjördæminu 2017, ekki heldur.
Sem stendur er Samfylkingin með einn þingmann í hvoru Reykjavíkurkjördæminu og einn þingmann í Suðvesturkjördæmi.
Í nýlegri umfjöllun Kjarnans, sem byggði á niðurstöðu tveggja kannana MMR sem gerðar voru um mánaðamótin október/nóvember, mældist fylgi Samfylkingarinnar á höfuðborgarsvæðinu 18,4 prósent. Fylgi á þeim slóðum myndi skila flokknum 4-5 þingsætum í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. Ef hann vinnur kosningasigur í borginni gætu þau orðið sex. Líkleg uppskera í Suðvesturkjördæmi, miðað við stöðu mála í könnunum um þessar mundir, yrðu tvö þingsæti.
Í sömu umfjöllun kom fram að Samfylkingin væri á miklu skriði hjá yngstu kjósendunum og konum. Í könnun sem MMR birti daginn fyrir kosningarnar 2016 mældist Samfylkingin með eitt prósent fylgi í aldurshópnum 18 til 29 ára. Í haust var Samfylkingin með 19,3 prósent fylgi hjá þeim aldursflokki. Þá kom fram í umfjölluninni að Samfylkingin nyti stuðnings 21,4 prósent kvenna en einungis 11,9 prósent karla.
Fyrir liggur að Logi Einarsson, formaður flokksins, muni leiða í Norðausturkjördæmi en óljóst er hvernig málum verður háttað í Norðvesturkjördæmi, þar sem þingmaðurinn Guðjón Brjánsson leiddi síðast, og í Suðurkjördæmi, þar sem Oddný Harðardóttir er sitjandi oddviti. Heimildir Kjarnans herma að vilji sé hjá mörgum áhrifamönnum innan flokks að gera breytingar í Norðvesturkjördæmi og sækja fastar fylgi í þéttbýlari sveitarfélög innan þess.