Fréttaskýringaþátturinn Heimskviður, sem hafði verið á dagskrá Rásar 1 undanfarið rúmt ár, var gert að hætta göngu sinni í desember vegna hagræðingaraðgerða hjá Ríkisútvarpinu sem kalla á uppstokkun í dagskránni. Um er ræða þátt sem hefur miðlað ítarlegum umfjöllunum um erlend málefni.
Nú, tæpum tveimur mánuðum síðar, hefur verið ákveðið að setja Heimskviður aftur á dagskrá og mun hann hefja endurgöngu sína á Rás 1 á ný 23. janúar og verður framvegis á laugardögum kl. 12:40.
Guðmundur segir á sama stað að þátturinn verði með örlítið breyttu sniði. „Hann verður 30 mínútur og sem fyrr leitumst við við að gera ítarlegar og vandaðar fréttaskýringar um málefni líðandi stundar, um allt það sem gerist ekki á Íslandi.“
Þegar ákveðið var að taka Heimskviður af dagskrá í lok nóvember sagði Þröstur Helgason, dagskrárstjóri Rásar 1, í samtali við Kjarnann að það væri gert vegna hagræðingaraðgerða.
„Við erum að setja á dagskrá nýjan þátt í hádeginu sem heitir einfaldlega Hádegið. Þar er um að ræða fréttaþátt sem inniheldur fréttaskýringar, þar á meðal erlendar í anda þeirra sem voru í Heimskviðum, viðtöl og umræður,“ sagði Þröstur þá í svari sínu, en hann boðaði líka að í upphafi þessa árs yrði nýr þáttur með erlendum fréttaskýringum tekinn á dagskrá Rásar 1.
Nú hefur verið ákveðið að sá þáttur verði Heimskviður.