Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar hefur óskað eftir því við þingmenn og forseta Alþingis að Alþingi komi saman á morgun, föstudag, til þess að gera breytingar á sóttvarnarlögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokki Samfylkingar.
Helga Vala Helgadóttir formaður velferðarnefndar Alþingis lagði til á fundi nefndarinnar í dag nefndin myndi í sameiningu leggja fram frumvarp til þess að skjóta styrkari stoðum undir sóttvarnalögin, sem eins og fram hefur komið undanfarna daga virðast ekki veita lagastoð fyrir þeim aðgerðum sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur brýnt að ráðast í á landamærum vegna nýs og meira smitandi afbrigðis kórónuveirunnar.
Ekki reyndist meirihluti fyrir tillögu Helgu Völu á fundi nefndarinnar í dag og hyggst Samfylkingin því leggja fram lagafrumvarp um málið og óskar eftir að þing komi saman á morgun, sem áður segir.
Í tilkynningu þingflokks Samfylkingar segir að nauðsynlegar lagabreytingar ætti að vera hægt að vinna hratt og örugglega þvert á flokka.
„Eins og fram hefur komið virðist vafi um lagaheimildir vera ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin hefur ekki farið að nýjum tillögum sóttvarnarlæknis um skimun og sóttkví á landamærum. Nú þarf Alþingi að rísa undir ábyrgð og tryggja að hægt sé að fara eftir tillögum sóttvarnarlæknis sem allra fyrst,“ segir í tilkynningu frá þingflokki Samfylkingarinnar.
Sóttvarnalæknir gestur á fundi nefndarinnar í dag
Frumvarp til nýrra sóttvarnalaga var lagt fram á Alþingi í nóvembermánuði og hefur verið til meðferðar í velferðarnefnd síðan þá. Helga Vala segir í samtali við Kjarnann að mikil vinna sé enn eftir í starfi nefndarinnar við frumvarpið í heild sinni og taka þurfi afstöðu til ótal álitaefna.
Þó væri hægt væri að gera nauðsynlegar lagabreytingar nú til þess að skjóta lagalegum stoðum undir þær aðgerðir sem sóttvarnalæknir hefur sagt brýnt að ráðast í.
Í samtali við blaðamann segir hún að Þórólfur hafi verið gestur á fundi velferðarnefndar í dag og lýst stöðunni á landamærum beinlínis sem „tifandi tímasprengju“, vegna hins svokallaða breska afbrigðis veirunnar, B117, sem er meira smitandi en önnur afbrigði.
Þórólfur beindi því til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í minnisblaði 6. janúar að gripið yrði til hertra aðgerða á landamærum „eins fljótt og auðið er“ til að lágmarka hættuna á því að „breska afbrigðið“ næði fótfestu hér á landi.
Annars vegar lagði Þórólfur til að allir yrðu skyldaðir í tvær skimanir með 5 daga sóttkví á milli. 14 daga sóttkví yrði ekki lengur möguleg. Hins vegar lagði Þórólfur til að þeim sem fara í 14 daga sóttkví yrði gert að vera í sóttkví í farsóttarhúsi (eða öðru opinberu húsnæði) með eða án kostnaðar, og fylgst yrði náið með því að reglum væri fylgt.
Þessar leiðir virðast ekki færar, samkvæmt núverandi sóttvarnalögum. Þórólfur hefur í ljósi þessa viðrað þá hugmynd að allir sem hingað til lands komi þurfi að framvísa neikvæðu PCR-prófi, sem megi að hámarki vera 48 klukkustunda gamalt. Síðan þyrfti fólk að auki að velja um skimun á landamærum eða 14 daga sóttkví, eins og hægt er að gera í dag.