Mynd: Almannavarnir Þórólfur Guðnason

Viku síðar er ekki enn búið að herða aðgerðir á landamærum eins og Þórólfur taldi réttast

Sóttvarnalæknir lagði til við heilbrigðisráðherra fyrir viku síðan að aðgerðir á landamærum yrðu hertar „eins fljótt og auðið er.“ Viku síðar er enn verið að skoða lagalegan grundvöll fyrir sumum þeim aðgerðum sem sóttvarnalæknir taldi brýnt að ráðast í.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir beindi því til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í minnisblaði 6. janúar síðastliðinn að gripið yrði til hertra aðgerða á landamærum „eins fljótt og auðið er“ til að lágmarka hættuna á því að nýtt og meira smitandi afbrigði kórónuveirunnar, „breska afbrigðið“, næði fótfestu hér á landi.

Í dag er 13. janúar. Ekki er búið að koma tillögum Þórólfs í framkvæmd nema að takmörkuðu leyti, en í gær kynnti heilbrigðisráðuneytið að frá og með deginum í dag yrði börnum sem fædd eru árið 2005 og síðar gert að fara í sóttkví með forráðamanni. Þar með er lokað fyrir það að börn sem koma erlendis frá geti farið beinustu leið í skólann.

„Þarna er smuga sem okkur er illa við“

„Staðan eins og hún er í dag horfir illa við okkur,“ segir Sigurgeir Ómar Sigmundsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum og yfirmaður flugvallardeildar embættisins. „Þarna er smuga sem okkur er illa við, að fólk komist inn í landið án þess að fara í nokkurs konar próf. Þannig að það er óskandi að girt verði fyrir það sem fyrst.“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sagt að verið sé að skoða lagalegan grundvöll fyrir öðrum fyrirbyggjandi aðgerðum sem Þórólfur lagði til að gripið yrði til á landamærum Íslands.

Auglýsing

Í minnisblaði sóttvarnalæknis, sem Kjarninn fékk afhent frá heilbrigðisráðuneytinu í dag, gefur sóttvarnalæknir ráðherra í raun tvo valkosti sem varða fullorðna einstaklinga sem til landsins koma. Markmiðið er að reyna að gulltryggja að þessir einstaklingar smiti ekki út frá sér í samfélaginu, en í minnisblaðinu segir Þórólfur dæmi um að einstaklingar sem kjósi að fara í 14 daga sóttkví í stað skimunar fari ekki eftir reglum um sóttkví.

Annars vegar lagði Þórólfur til að allir yrðu skyldaðir í tvær skimanir með 5 daga sóttkví á milli. 14 daga sóttkví yrði ekki lengur möguleg. Hins vegar lagði Þórólfur til að þeim sem fara í 14 daga sóttkví yrði gert að vera í sóttkví í farsóttarhúsi (eða öðru opinberu húsnæði) með eða án kostnaðar, og fylgst yrði náið með því að reglum væri fylgt.

„Við höfum stutt sóttvarnalækni heilshugar í því að loka á möguleikann á fjórtán daga sóttkví eða að fólk myndi sitja hana af sér í sóttvarnahúsi,“ segir Sigurgeir. „Faraldurinn er mjög alvarlegur erlendis og fjöldi smita á landamærunum endurspeglar það.“

Yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum og yfirmaður flugvalladeildar embættisins segir óskandi að það verði girt fyrir þá glufu sem er nú til staðar varðandi sóttkví við komuna til landsins sem fyrst.
Bára Huld Beck

Frá því að sýnataka á landamærum var gerð gjaldfrjáls í desember hafa fleiri valið að fara í skimun en engu að síður er alltaf hluti farþega sem vill ekki í sýnatöku, að sögn Sigurgeirs. Á síðustu vikum hafa tæplega þrjátíu valið sóttkví frekar en skimun. „En það þarf ekki nema einn, við vitum það,“ minnir Sigurgeir á og rifjar upp hvernig bláa afbrigði veirunnar, það sem fyrst og fremst hefur greinst hér á landi síðustu mánuði, komst inn í landið. Það afbrigði komst inn í landið með einu pari og olli faraldri.

Fólk gefur ýmsar ástæður fyrir því að fara ekki í skimun á landamærum. Sumir vísa í að það sé þeirra réttur og aðrir vilja ekki að lífssýnum úr þeim sé safnað með þessum hætti. Áður en gjaldtöku var hætt voru fleiri sem völdu sóttkvína svo peningar virðast einnig hafa spilað hlutverk. Sigurgeir segir að vissulega séu sumir sem koma til landsins sannarlega að fara beint í sóttkví og fari eftir öllum reglum í því sambandi.

„En það er vitað að það eru ekki allir að fylgja því að fara í fjórtán daga sóttkví,“ segir Sigurgeir og vísar m.a. til orða Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis í Silfrinu um helgina í því sambandi.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sagt von á ákvörðun um aðgerðir í þessari viku.
Bára Huld Beck

„Okkar fólk talar svo við þá sem eru að koma inn í landið og það skín stundum í gegn að fólk ætlar sér ekki að halda sóttkví. Þá látum við lögregluumdæmi þar sem viðkomandi býr vita. Og reynt er svo eftir fremsta megni að fylgjast með. En það segir sig sjálft að það er ekki hægt að fylgjast með öllum alltaf. Það er enginn mannafli í það,“ segir Sigurgeir.

Lagalegur grundvöllur aðgerða til skoðunar

Svandís heilbrigðisráðherra talaði með þeim hætti í síðustu viku að líklegast væri að fólk yrði skyldað til þess að dvelja 14 daga í farsóttarhúsum. 

Í gær sagði hún hins vegar við mbl.is að verið væri að skoða lagagrundvöllinn fyrir þeirri aðgerð og fleiri útfærslumöguleika, eins og til dæmis það að gera kröfu um neikvætt próf sem tekið yrði í landinu sem viðkomandi kæmi frá. 

Hún sagði von á ákvörðun um hvernig málum yrði háttað í þessari viku.

Það sem Þórólfur lagði til:

  • 1. Allir (nema þeir sem eru með vottorð um fyrri sýkingu) verði skyldaðir til að undirgangast tvær skimanir á landamærum með 5 daga sóttkví á milli. 14 daga sóttkví án skimunar verði ekki valkvæð nema af læknisfræðilegum ástæðum. 
  • 2. Þeir sem fara í 14 daga sóttkví verði gert að vera í sóttkví í farsóttahúsi (eða öðru opinberu húsnæði) með eða án kostnaðar þar sem fylgst verður náið með því að reglum verði fylgt. 
  • 3. Fylgst verði vel með þeim sem velja skimanir með 5 daga sóttkví með reglulegum símtölum og þeim gefnar nauðsynlegar upplýsingar. Sérstaklega á þetta við um þá sem greinast með „breska stofninn“.
  • 4. Börn sem fædd eru 2005 og síðar verði gert að vera í sóttkví með forráðamanni þó sýnataka sé ekki framkvæmd. 

Fólk hefur verið hvatt til að velja sýnatöku fremur en sóttkví

Í minnisblaði Þórólfs er farið yfir það að faraldurinn hafi verið í mikilli uppsveiflu í nálægum löndum en verið í lágmarki hér innanlands. Uppsveifluna erlendis mætti víða að miklu leyti rekja til nýs stofns veirunnar, sem greindist fyrst í Bretlandi.

Staðan á faraldrinum er góð hér á landi miðað við flest nágrannalönd, en sumstaðar hefur breska afbrigðið valdið því að faraldurinn er í hæstu hæðum.
Our World in Data

„Komið hefur í ljós að þessi stofn virðist smitast auðveldar milli manna en aðrir stofnar og vísbendingar eru um að hann valdi einnig meiri smitum hjá börnum,“ skrifar Þórólfur, en Kjarninn fjallaði ítarlega um þetta nýja afbrigði og einnig nýtt afbrigði sem greindist fyrst í Suður-Afríku nýlega.

Þórólfur sagði í minnisblaði sínu að fólk hefði að undanförnu verið hvatt til þess að fara í skimun frekar en sóttkví. „Þetta hefur leitt til að um 1% velur nú sóttkví og eru þetta um 26 manns frá 10. desember sl. Í nokkrum tilfellum hafa þessir einstaklingar hins vegar verið staðnir að því að halda ekki þær reglur sem um sóttkví gilda sem eykur hættu á frekara smiti,“ ritaði sóttvarnalæknir.

„Í ljósi þeirra góðu stöðu sem er á COVID faraldrinum núna innanlands, vaxandi útbreiðslu faraldursins í nálægum löndum og þeirrar hættu sem virðist yfirvofandi að „breski stofninn“ nái að breiðast út hér innanlands, þá tel ég mikilvægt að við tryggjum bestu fyrirbyggjandi aðgerðir á landamærum,“ skrifaði sóttvarnalæknir í minnisblaði sínu til ráðherra 6. janúar.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar