Skipstjóri togarans Júlíusar Geirmundssonar, sem ákærður var fyrir brot á sjómannalögum í kjölfar þess að hópsýking kom upp um borð fyrr í vetur, játaði sök er ákæran var þingfest í Héraðsdómi Vestfjarða í dag.Í frétt RÚV um máliðsegir að honum sé gert að greiða 750 þúsund króna í sekt og að hann missi skipstjórnarréttindi sín í fjóra mánuði.
Í þeirri grein sjómannalaga sem skipstjórinn var ákærður fyrir að brjóta gegn segir að veikist skipverji eða slasist skuli skipstjóri sjá um að hann fái nauðsynlega umönnun á skipinu eða í landi. Ef ástæða er talin að ætla að einhver um borð sé haldinn sjúkdómi sem hætta stafi af fyrir aðra skuli skipstjóri láta flytja sjúklinginn í land, ef ekki reynist unnt að verjast smithættu á skipinu.
22 skipverjar á togaranum smituðust af COVID-19 í veiðiferð í október. Landhelgisgæslan var hins vegar ekki látin vita af hugsanlegu hópsmiti auk þess sem ekki var farið í land eftir að upp komst um veikindin.
Einn skipverjanna kom í viðtal í kjölfar atburðanna og sagði m.a. frá því skipverjar hefðu verið látnir vinna þrátt fyrir veikindin. „Það er óumdeilt að það leið engum vel í þessum aðstæðum og þeir voru allir að bíða eftir að komast í land,“ sagði Bergvin Eyþórsson, varaformaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga í samtali við Kjarnann í lok október.
Júlíus Geirmundsson er í eigu Hraðfrystihússins Gunnvarar hf.