Línur eru farnar að skýrast hvað varðar framboðslista stjórnmálaflokkanna fyrir komandi Alþingiskosningar. Víða er orðið ljóst hvaða fólk mun skipa efstu sæti framboðslista eða gefur kost á sér til þess að taka efstu sæti á listum.
Nokkur óvissa og spenna er þó til staðar, til dæmis hvað framboð Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi varðar. Kjarninn kannaði hug nokkurra þeirra sem hafa verið nefnd á nafn í samhengi við mögulegt framboð í kjördæminu.
Flokkurinn er í dag með tvo þingmenn í Norðausturkjördæmi, þá Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Njál Trausta Friðbertsson. Báðir eru þeir af Eyjafjarðarsvæðinu þar sem meirihluti kjósenda kjördæmisins býr, en kjördæmið er víðfemt og nær frá Siglufirði og suðaustur á Djúpavog.
Óljóst er hvað Kristján Þór ætlar sér að gera varðandi framboð. Hann hefur ekki brugðist við fyrirspurn Kjarnans um fyrirætlanir sínar. Njáll Trausti hefur hins vegar þegar gefið það út að hann muni gefa kost á sér að nýju.Gauti hugsar sig „mjög alvarlega“ um
Nokkur önnur nöfn hafa verið nefnd í samhengi við mögulegt framboð, meðal annarra nafn sveitarstjórans á Húsavík, Kristján Þórs Magnússonar. Hann hefur ekki brugðist við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Það gerði hins vegar Gauti Jóhannesson, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, sem áður var sveitarstjóri Djúpavogshrepps. Í samtali við Kjarnann segist hann hafa „hugsað þetta mjög alvarlega“. Hann hafi hins vegar haft í nógu öðru að snúast upp á síðkastið.
Sveitarstjórn Múlaþings hefur verið að takast á við þau fjölmörgu verkefni sem fylgja skriðuföllunum miklu á Seyðisfirði fyrir jól ofan á það stóra verkefni sem blasti við sveitarstjórninni, að fylgja sameiningu fjögurra sveitarfélaga úr garði.
„Ég hef bara ekki gefið mér tíma til þess að setjast og fara yfir þetta með mínu baklandi. Ég á nú svona frekar von á því að gera það fljótlega,“ segir Gauti. Hann segir í samtali við blaðamann að undir hans forystu hafi Sjálfstæðisflokkurinn unnið kosningasigur í Múlaþingi síðasta haust, en flokkurinn myndar meirihluta ásamt Framsóknarflokki í sveitarfélaginu.
Gauti segist vera þeirrar skoðunar að það sé „löngu tímabært að sjálfstæðisfólk á Austurlandi eigi fulltrúa á þingi“ en einstaklingur með fasta búsetu á Austurlandi hefur ekki setið á þingi fyrir hönd flokksins í Norðausturkjördæmi síðan árið 2009, er Arnbjörg Sveinsdóttir lét af þingmennsku. Það er þó vert að taka fram að Tryggvi Þór Herbertsson, sem sat á þingi fyrir flokkinn frá 2009-2013 er fæddur og uppalinn í Neskaupstað.
Ásthildur og Jens Garðar í skemmtilegum störfum
Nöfn Ásthildar Sturludóttur bæjarstjóra á Akureyri og Jens Garðars Helgasonar, formanns Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og bæjarfulltrúa í Fjarðabyggð, hafa einnig verið nefnd í samhengi við mögulegt framboð til efstu sæta á lista Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu.
Ekkert virðist þó hæft í slíkum samkvæmisleikjum og segja þau bæði við Kjarnann að þau séu í skemmtilegum störfum sem þau ætli sér ekki að hverfa frá.
„Ég sinni mjög góðu starfi og skemmtilegu og hef ekki hug á því að fara í framboð eins og sakir standa,“ segir Ásthildur.
Jens Garðar segir ekkert hæft í því að hann hyggi á sókn eftir þingsæti, en hann er framkvæmdastjóri Laxa-fiskeldis og segir alveg „ofboðslega spennandi verkefni“ að takast á við í uppbyggingu laxeldis á Austfjörðum. Hann útilokar þó ekki að verða einhversstaðar neðar á framboðslista flokksins í kjördæminu.