Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna og 1. varaformaður velferðarnefndar Alþingis, gerir sér vonir um að velferðarnefnd nái að ljúka vinnu sinni við breytingar á sóttvarnalögum í næstu viku og málið geti þá fengið skjóta afgreiðslu þingsins.
Eins og greint var frá í gær vildi þingflokkur Samfylkingar að þing kæmi saman í dag til þess að gera breytingar á sóttvarnalögum sem myndu skjóta lagastoðum undir þær hertu aðgerðir á landamærum Íslands sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur lagt til við heilbrigðisráðherra í ljósi mikils uppgangs faraldursins erlendis og nýrra og meira smitandi afbrigða kórónuveirunnar.
Ekki varð af því, en samkvæmt því sem Kjarninn kemst næst voru einungis þingflokkar Viðreisnar og Flokks fólksins fylgjandi því að þingið kæmi saman í dag til þess að gera slíkar breytingar. Ríkisstjórnin samþykkti hins vegar á fundi sínum í dag að skylda alla í skimun, ef til vill nokkuð óvænt, í ljósi fyrri orða heilbrigðisráðherra og sóttvarnalæknis um málið.
Sóttvarnalæknir virtist búinn að sætta sig við að ekki yrði hægt, samkvæmt gildandi sóttvarnalögum, að fara þá að skylda alla sem til landsins koma í tvöfalda skimun, en það er þó leiðin sem ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag.
„Við teljum að lögin séu nægilega styðjandi við þessa ákvörðun vegna þess hve alvarleg staðan er. Því gríp ég til þessa neyðarúrræðis,“ sagði Svandís Svavarsdóttir í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar.
Tekið skal fram að komufarþegar sem geta framvísað gildu vottorði sem sýnir fram á að COVID-19 sýking sé afstaðin eru áfram undanþegnir sóttvarnaaðgerðum á landamærum og það sama mun gilda um komufarþega sem geta framvísað gildu bólusetningarvottorði.
Þyrfti ekkert að vera að leika einhvern millileik
Ólafur Þór sagði við Kjarnann, áður en ríkisstjórnin kynnti ákvörðun sína í hádeginu, að á fundi nefndarinnar í gær hafi Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar reifað það að leggja fram tillögu að skjótum lagabreytingum.
Það hefði verið rætt, en hann hefði þar komið þeirri skoðun á framfæri að betra væri að freista þess að klára það frumvarp sem hefur legið fyrir og nefndin hefur verið að vinna. Velferðarnefndin hélt aukafund um málið í dag og annar er fyrirhugaður á mánudag.
„Ég hef væntingar til þess að klára málið í næstu viku. Þá þarf ekkert að vera að leika einhvern svona millileik,“ sagði Ólafur Þór.
Endurskoðunin sem nú stendur yfir á sóttvarnalögum er til þess að bregðast við þeim athugasemdum sem komu fram í álitsgerð Páls Hreinssonar um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana og ætlað að skerpa á þeim.
Óviss um að lagastoð sé fyrir ákvörðun ríkisstjórnarinnar
Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar segist ekki skilja neitt í þeirri ákvörðun sem ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag. „Bara alls ekki neitt,“ skrifar Helga Vala á Facebook.
„Hér sitjum við í velferðarnefnd sveitt með ýmsum lögspekingum að ræða stjórnarskrá, meðalhóf og mikilvægi þess að ákvarðanir stjórnvalda hafi lagastoð og þá gerist þetta? Hvenær gerðist það að ekki er þörf á skýrri lagaheimild til svona takmörkunar? Er þetta vegna þess að ríkisstjórnin treystir sér ekki til að fara með þetta fyrir Alþingi?“ skrifar hún.
Hvað ef fólk neitar skimun?
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fer yfir ákvarðanir ríkisstjórnarinnar varðandi takmarkanir á landamærum á Facebook í dag. Þar segir hún að því miður séu dæmi um að fólk hafi brotið reglur um sóttkví og því verði tvöföld skimun með fimm daga sóttkví framvegis skylda.
„Ef fólk neitar slíku mun hvert slíkt dæmi verða skoðað og brugðist við með viðeigandi hætti,“ skrifar forsætisráðherra, en útskýrir ekki frekar með hvaða hætti yrði brugðist við.
Í sömu færslu segir forsætisráðherra ljóst að ekki séu lagalegar heimildir til að skylda fólk í farsóttarhús. Í anda meðalhófs hafi stjórnvöldum þótt mikilvægt að bjóða upp á valkosti en dæmin um brot á sóttkví segi ríkisstjórninni að þetta skref sé „nauðsynlegt til að tryggja enn betur sóttvarnir.“
Innáskiptingar hjá Sjálfstæðisflokki
Velferðarnefnd hefur rætt um breytingar á sóttvarnalögum núna í upphafi árs, á fimm fundum. Báðir fulltrúar Sjálfstæðisflokks í nefndinni, Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason, hafa verið fjarverandi á nokkrum þeirra.
Í stað þeirra hafa Sigríður Á. Andersen og Birgir Ármannsson þingflokksformaður komið inn í nefndina. Bryndís Haraldsdóttir er varamaður Sjálfstæðisflokksins í nefndinni en hún hefur ekki verið kölluð inn í forföllum þeirra Ásmundar og Vilhjálms.
Vilhjálmur segir við Kjarnann að það sé ekki þannig að það sé alltaf farið eftir því hver er varamaður flokksins í nefndinni þegar senda þurfi afleysingafólk á nefndarfundi. Það sé einfaldlega spurt hvort einhver geti hlaupið í skarðið og þá stígi þeir sem hafi áhuga á því fram og sitji fundina.