Alls segjast 63 prósent aðspurðra í nýrri könnun MMR treysta Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, mjög eða frekar illa til að leiða einkavæðingu Íslandsbanka. Könnunin, sem gerð var daganna 13-18. janúar, var framkvæmd fyrir þrýstihópinn Skiltakarlanna. Fyrst var greint frá henni á vef Fréttablaðsins.
Á móti segjast 23 prósent landsmanna treysta Bjarna frekar eða mjög vel til að leiða sölu á hlut ríkisins í bankanum. 14 prósent svarenda sagðist ekki hafa afgerandi skoðun á því hvort þeir treystu formanni Sjálfstæðisflokksins til verksins eða ekki.
Um netkönnun var að ræða og var fjöldi svarenda 915.
Söluferlið á Íslandsbanka var sett á ís í mars í fyrra en skyndilega endurvakið 17. desember síðastliðinn þegar Bankasýsla ríkisins sendi tillögu til Bjarna þess efnis. Sú tillaga var samþykkt fjórum dögum síðar, 21. desember.
Samhliða var sent bréf og greinargerð til Alþingis og óskað eftir umsögn fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar um greinargerðina. Nefndarmenn fengu til 20. janúar, eða einn mánuð, til að skila þeirri umsögn. Hún þarf því að liggja fyrir á miðvikudag en fyrsti þingfundur ársins 2021 var í dag.
Þar flutti Bjarni munnlega skýrslu um hina væntanlegu sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka og í kjölfarið hófust umræður um málið. Þær standa enn yfir þetta er skrifað.