Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), sagði innsetningu Joe Biden í embætti Bandaríkjaforseta marka „nýja dögun“ þar í landi, og bætti við að Evrópa ætti sér loksins vin í Hvíta húsinu eftir fjögur löng ár. Hún sagði mikilvægt að ESB og Bandaríkin vinni saman í að koma í veg fyrir hatursorðræðu og falsfréttir með fjölþjóðlegum reglugerðum fyrir tæknifyrirtækin.
Þetta kemur fram í frétt á vef Reuters sem birtist í gær. Samkvæmt fréttinni hefur framkvæmdastjórnin útbúið nýja samvinnuáætlun við Bandaríkin, en í henni er vonast til frekara samstarfs við Bandaríkin í loftslagsmálum, heilbrigðismálum, stafrænni þróun og lýðræðismálum.
Í ávarpi sínu til framkvæmdastjórnarinnar í gær sagði von der Leyen að hún fyndi fyrir miklum létti nú, þar sem einangrunarstefna Donald Trump væri á enda. Þó varaði hún við að slíkur léttir ætti ekki að blinda fólki sýn, þar sem stuðningsmenn Trump væru enn til staðar og nauðsynlegt væri að takast á við eggjun þeirra til ofbeldis.
Að mati von der Leyen væri hægt að takmarka orðræðuna sem leiddi til innrásarinnar í bandaríska þinghúsið fyrir tveimur vikum síðan með lagasetningu gegn hatursorðræðu og dreifingu falsfrétta. „Slíkt pólitískt vald, sem er núna algjörlega í höndum netrisanna, þarf að takmarka,“ hefur Reuters eftir von der Leyen.
Framkvæmdastjórinn lagði til að sérstakt tækniráð yrði sett upp með fulltrúum frá bæði Bandaríkjunum og ESB. Hlutverk slíks ráðs væri að leggja drög að alþjóðlegri reglugerð fyrir tæknifyrirtæki sem lönd um allan heim gætu fylgt. Samkvæmt Evrópusambandinu þyrfti skýrar reglur um uppbyggingu gervigreindar og flókinna algríma sem byggð væru á mikilli gagnasöfnun, án þess að þær kæmu niður á kostina sem slík tækni getur boðið upp á.