Vísindamenn við læknadeild Stanford-háskóla hafa þróað app fyrir snjallúr sem láta notendur úranna vita ef líkami þeirra sýnir einhver merki um að vera að berjast við sýkingu. Meðal merkja sem úrið nemur er breyting á hjartslætti.
Appið notar reikniforskrift sem merkir breytingar á hvíldarpúlsi notandans sem og fjölda skrefa sem hann tekur. Í rannsókn sem gerð var í tengslum við þróun appsins kom í ljós að það fann í 63 prósent tilfella ummerki um sýkingu af völdum nýju kórónuveirunnar áður en augljós líkamleg einkenni gerðu vart við sig. Í þeim tilfellum sem appið gaf ranga niðurstöðu getur skýringin t.d. falist í lyfjanotkun viðkomandi, segir Michael Snyder, prófessorinn sem leiddi rannsóknina og þróun appsins. Hana má einnig mögulega rekja til þess að viðkomandi hafi verið á ferð og flugi eða hafi verið á ákveðnum stað í tíðahringnum.
Appið er enn í þróun en stefnt er að því að reikniforskriftin verði aðgengileg um tíu milljónum manna innan skamms. Stefnt er að því að notendur Fitbit-úra fái fyrstir að njóta þess en svo stendur til að gera það aðgengilegt fyrir úr annarra framleiðenda sem og í aðrar gerðir tækja sem nema stöðugt lífsmörk fólks.
Það sem appið gerir er að senda notanda úrsins viðvörun þegar það finnur breytingar á líkamsstarfsemi, annað hvort gula eða rauða. Snyder segir mikilvægt fyrir notendur að gera sér grein fyrir því að appið getir ekki greint COVID-19 sýkingu frá öðrum sýkingum. A‘ minnsta kosti ekki enn sem komið er.
Hann segir að markmiðið sé ekki einfaldlega það að láta fólk vita að það sé orðið veikt heldur að finna merki um sýkingar snemma og áður en líkamleg einkenni fara að gera vart við sig. Á meðan faraldri COVID-19 stendur gæti slíkt viðvörunarkerfi nýst fólki til að taka ákvörðun um að fara í einangrun fyrr en ella og að fara í sýnatöku. Segir Snyder að appið geti fundið merki um sýkingu tíu dögum áður en einkennin koma almennt fram.
Einkennalausir geta smitað aðra
Veiran sem veldur COVID-19 er þeim eiginleikum gædd að einkenni vegna sýkingar af hennar völdum geta dulist í marga daga og þar með er aukin hætta á að sá sem sýkst hefur smiti aðra á þessu tímabili.
Vinsældir snjallúra eru miklar og margir notendur þeirra hafa þau á sér allan sólarhringinn. Það þýðir að úrið er stöðugt að fylgjast með líkamsstarfsemi á borð við hjartslátt. Úrin „læra“ svo inn á hvern og einn notanda og greina því merki um breytingar á venjulegum hjartslætti af nokkurri nákvæmni.
Rannsókn vísindamannanna við Stanford-háskóla hófst þegar í mars á síðasta ári. Þá voru sjálfboðaliðar fengnir til samstarfs og báru þeir Fitbit-snjallúr. Af 5.000 þátttakendum sýktust 32 af COVID-19 og í 26 tilvikum mátti greina frávik í hvíldarpúls sem átti sér ekki eðlilegar skýringar. Vísindamennirnir komust einnig að því að þeir sem höfðu sýkst gengu að meðaltali 1.440 færri skref og sváfu að meðaltali hálftíma lengur en þeir sjálfboðaliðar sem ekki höfðu sýkst.
Í kjölfarið var þróað viðvörunarkerfi. Appið lætur viðkomandi vita með „gulu spjaldi“ ef einhverjar breytingar greinast sem fylgjast ætti með eða með „rauðu spjaldi“ sem táknar álag án augljósrar skýringar. Ef sá sem með úrið gengur veit hver ástæðan fyrir frávikinu er, t.d. áfengisneysla eða mikil hæð yfir sjávarmáli, getur hann einfaldlega afskrifað viðvörunina. Ef hann hefur engar skýringar getur verið að hann hafi fengið sýkingu sem líkaminn er að reyna að vinna á og ætti því að einangra sig og fara í sýnatöku.