Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin hafa farið fram á það við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) að hann greini helstu ógnir og veikleika í tenglsum við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á svæðinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Seðlabankanum sem barst fyrr í dag.
Samkvæmt tilkynningunni vilja löndin að AGS taki hliðsjón af því hversu samofin fjármálakerfi landanna eru og sérstaklega hve mikið er um að bankar starfi og hafi tengsl milli innan svæðisins.
Tilkynningin segir einnig að tækifæri gefist til að greina áhættu á þessum þáttum á svæðinu í heild með því að fá sjónarmið sjóðsins, sem hafi orðspor sem traustur og sjálfstæður ráðgjafi um peningaþvætti og baráttuna gegn fjármögnun hryðjuverka.
Sjóðurinn mun hefja úttekt sína í þessum mánuði, en búist er við að hann greini frá niðurstöðum sínum um mitt næsta ár.
Á gráa listanum í tvö ár
Ísland rataði á gráan lista FATF, alþjóðlegs fjármálaaðgerðahóps ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í október 2019 vegna ónógra varna gegn slíkri starfsemi. Samkvæmt úttekt hópsins höfðu íslensk stjórnvöld látið innleiðingu laga sem kæmi í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sitja á hakanum, til að mynda skorti upplýsingar um eignarhald íslenskra félaga. Einnig gáfu samtökin eftirliti hér á landi með peningaþvætti falleinkun.
Í kjölfar skráningar Íslands á listann mættu bæði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Þar kom fram að stjórnvöld stefndu að því að komast af listanum á fundi samtakanna í febrúar 2020. Það gekk hins vegar ekki upp og ákváðu FATF að halda Íslandi á listanum eftir febrúarfund þeirra.
Síðastliðinn október komst Ísland svo loks af gráa listanum, í kjölfar vettvangsathugunar sem fram fór hér á landi í lok september. Í athuguninni var staðfest af hálfu sérfræðinga á vegum FATF að öllum aðgerðum sem Ísland var gert að grípa til væri lokið með fullnægjandi hætti .
Bankar á Norðurlöndunum sakaðir um peningaþvætti
Ýmsir bankar á Norðurlöndunum hafa legið undir grun fyrir að hafa uppi slakar varnir gegn peningaþvætti eða beinlínis taka þátt í því sjálfir á síðustu árum.
Árið 2018 var Danske bank sakaður um að hafa stundað peningaþvætti fyrir u.þ.b. 890 milljarða íslenskra króna í gegnum útibúið sitt í Eistlandi. Útibúið átti að hafa tekið á móti stórum fjárhæðum frá erlendum viðskiptavinum, mörgum hverjum frá löndum sem hafa veikar varnir gegn peningaþvætti, líkt og Rússlandi, Moldóvu og Azerbaijan. Sænski bankinn Swedbank átti einnig aðild að því máli.
Ári seinna gerði danska lögreglan húsleit í útibúi norræna bankans Nordea í Vesterport. Talið var að bankinn hafi aðstoðað viðskiptavini, sem margir voru frá Eystrasaltslöndunum, við að þvætta margar milljónir danskra króna, líkt og kom fram í frétt RÚV.
Í síðasta mánuði varaði svo fjármálaeftirlit Noregs norska bankann DNB við sekt upp á 5,7 milljarða íslenskra króna vegna lélegra varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ríkissaksóknari Noregs rannsakar nú bankann vegna gruns um að hafa komið fjármunum Samherja í skattaskjól.