Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur til þessa samþykkt áform byggingaraðila um byggingu alls 950 íbúða sem teljast hagkvæmar í skilningi laga um hlutdeildarlán. Þar af hafa áform um 362 hagkvæmar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu verið samþykkt af HMS.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu HMS um stöðu og þróun húsnæðismarkaðs á Íslandi, sem kynnt var á húsnæðisþingi sem fram fer í dag. Þar eru birtar töflur um vænt meðalsöluverð þessara hagkvæmu íbúða og meðalstærð þeirra.
Þegar horft er á landið allt eru langflestar samþykktar íbúðir með tveimur svefnherbergjum, eða nærri helmingur allra þeirra íbúða sem eru í áformunum sem samþykkt hafa verið. Meðalstærð íbúðanna er 79,1 fermetri og meðalverð 36,7 milljónir eða um 460 þúsund krónur á fermetra.
Í annarri töflu er vikið að höfuðborgarsvæðinu sérstaklega, en þar eru íbúðirnar að meðaltali minni og dýrari. Meðalsöluverð þeirra 183 tveggja svefnherbergja íbúða sem samþykktar hafa verið á höfuðborgarsvæðinu er þannig 43,25 milljónir króna en þegar horft er yfir landið allt er meðalverð hagkvæmrar íbúðar í sama stærðarflokki 37,3 milljónir króna.
Í skýrslu HMS segir að skipulag sveitarfélaga og lóðaframboð eigi stóran þátt í hagkvæmri uppbyggingu íbúða. „Íþyngjandi skilmálar geta sett hönnuðum ákveðin takmörk við að ná fram sem hagkvæmastri hönnun og við val á lausnum á byggingarreitnum,“ segir í umfjöllun í skýrslunni.
Þar segir einnig að mikilvægt sé að „auka skilvirkni í afgreiðslu skipulagsyfirvalda svo ekki verði óþarfa tafir á framleiðslu íbúða,“ og að tafir í afgreiðslu geti leitt til „hærri fjármagnskostnaðar en nauðsynlegt er sem leiðir til hærra íbúðaverðs og þar með hærri húsnæðiskostnaðar fyrir almenning.“
Einnig er sagt mikilvægt að lóðaframboð sveitarfélaga sé „gott og fjölbreytt,“ þar sem skortur á lóðum geti leitt til hærri stofnkostnaðar íbúða þar sem eftirspurn er mikil.
Óuppfyllt íbúðaþörf á landinu á milli 3.200 til 4.850 íbúðir nú
Ný íbúðaþarfagreining frá HMS er einnig í skýrslunni, en þar er lagt mat á hversu mikil óuppfyllt íbúðaþörf sé á Íslandi í dag. Með óuppfylltri íbúðaþörf er átt við að framboð íbúða sé ekki í samræmi við undirliggjandi þörf heimilanna miðað við mat á íbúafjölda, heimilisgerð og aldurssamsetningu, en ekki að samsvarandi íbúafjöldi sé húsnæðislaus eða í húsnæðishraki.
Núna í upphafi árs er það mat HMS að óuppfyllt íbúðaþörf á Íslandi sé á bilinu 3.200-4.850 íbúðir og er hún því að lækka um 1.700 íbúðir á milli ára.
„Helstu ástæður fyrir því eru þær að útreiknaður fjöldi heimila, miðað við mannfjöldatölur Hagstofunnar og áætlaða heimilasamsetningu, eykst talsvert minna en fjölgun húsnæðis á milli ára, en fjölgun húsnæðis nam rúmlega þrjú þúsund íbúðum í lok árs 2020 á landinu öllu miðað við um 1.900 heimili.
Byggingarmagn ársins 2020 náði því að vinna upp talsvert af óuppfylltu íbúðaþörfinni á því ári og vegna COVID-19 faraldursins hefur talsvert dregið úr fólksfjölgun miðað við síðustu ár, en á móti því kemur að fjöldi íbúða sem voru áður alfarið í skammtímaleigu hafa bæst við framboð íbúðarhúsnæðis og lækka þar með þörfina þó nokkuð.
Óvíst er hversu hratt markaður fyrir skammtímaleiguhúsnæði til ferðamanna mun vaxa á ný á næstu árum vegna töluverðrar óvissu í efnahagsmálum og áframhaldandi baráttu við farsóttina. Auk þess hefur mikið verið fjárfest í uppbyggingu hótela á síðustu árum sem mun líklega draga eitthvað úr þörf fyrir íbúðir í skammtímaleigu þegar ferðamannaiðnaðurinn tekur aftur við sér,“ segir um þetta í skýrslunni frá HMS.
1.900 íbúðir á ári til ársins 2040
Búist er við að óuppfyllt íbúðaþörf aukist á ný á allra næstu árum. „Til ársins 2040 þarf líklega um 36 þúsund íbúðir í heild til að mæta metinni undirliggjandi íbúðaþörf landsins. Þetta samsvarar að meðaltali um 1.900 íbúðum á ári. Ef tímabilið er stytt um 10 ár, þ.e. stefnt yrði að því að óuppfyllt íbúðaþörf yrði upprætt árið 2030 þyrftu um 2.970 íbúðir að bætast við íbúðastofninn á ári að meðaltali á tímabilinu 2021-2030,“ segir í skýrslu HMS.