Guðmundur Kristjánsson, aðaleigandi Brims, hefur verið ráðin forstjóri félagsins á ný. Guðmundur lét að störfum að eigin ósk 30. apríl í fyrra. Nokkrum dögum síðar sagði hann í viðtali við Kastljós að það hefði verið vegna þess að Samkeppniseftirlitið hefði tilkynnt honum að það ætlaði rannsaka meint yfirráð hans og tengdra félaga yfir Brim.
Hann sagði að eftirlitið hefði gert athugasemdir við stöðu mála hjá Brimi alveg frá því að hann tók við forstjórastólnum í júní 2018. Guðmundur upplifði það þannig að Samkeppniseftirlitið væri að eltast við hann persónulega og hann langaði til að berjast við það. En skynsemin hefði sagt honum að gera það ekki. „Það er ekki hægt að stöðva þróun fyrirtækis út af einum manni.“
Ekkert er fjallað um Samkeppniseftirlitið í tilkynningu Brims til Kauphallar Íslands vegna endurráðningar Guðmundar.
Í tilkynningunni er haft eftir Guðmundi að það sé ánægjulegt að vera kominn aftur til starfa. „Ég hef nýtt tímann vel og kem fullur krafts og tilhlökkunar til starfa. Við höfum séð að þegar aðstæður í efnahagslífinu verða erfiðar, eins og síðustu misseri, að sjávarútvegur er burðarstólpi í íslensku samfélagi og við hjá Brim munum leggja okkar af mörkum til þess að svo verði áfram. Brim stundar ábyrgar veiðar og vinnslu enda er það grundvöllur fyrir því að tryggja til framtíðar trausta atvinnu og byggð á Íslandi.“
Brim er sú útgerð sem heldur á mestum kvóta á Íslandi, eða 10,13 prósent. Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á 43,97 prósent hlut í Brim beint og í gegnum dótturfélag sitt RE-13 ehf, hefur fengið úthlutað 3,51 prósent af öllum aflaheimildum. Útgerðarfélag Reykjavíkur er að uppistöðu í eigu Guðmundar.