„Hefði ekki komið mér á óvart að þessi grein hefði verið skrifuð í þingflokksherbergi Viðreisnar. Friðjón notar alla sömu frasana sem þaðan koma án þess að segja nokkuð um hverju eigi að breyta og hvernig eða af hverju. En eitt er víst, að skrif hans endurspegla djúpstæða óánægju með forystu Sjálfstæðisflokksins.“
Þetta skrifar Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann bregst við grein sem Friðjón R. Friðjónsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar og miðstjórnarmaður í Sjálfstæðisflokknum, skrifaði í liðinni viku.
Í grein sinni, sem vakti mikla athygli þar sem áhrifamikill innanbúðarmaður var að gagnrýna stóru drættina í stefnu Sjálfstæðisflokksins, sagði Friðjón m.a. að Sjálfstæðisflokkurinn hafi nú á sér það yfirbragð að hann vilji ekki að íslenskt samfélag breytist í takt við tímann eða umheiminn. „Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að skilgreina sig sem flokk sem er á móti breytingum á efnahagslífinu, sjávarútveginum, landbúnaðarkerfinu, orkumálum, stjórnarskránni og samfélaginu sjálfu – þá mun hann daga uppi og verða að steini, eins og tröll í dagrenningu. Aðrir stjórnmálaflokkar taka sér þá forystuhlutverk og færa sínar hugmyndir og sitt stjórnlyndi í lög og reglur.“
Hefur meiri áhyggjur af öðrum flokkum
Grein Brynjars ber fyrirsögnina „Steintröllin“ með vísun í ofangreint. Þar segist Brynjar hafa miklu meiri áhyggjur af stöðu og stefnu annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins „sem óljóst er fyrir hvaða gildi standa og hafa enga stefnu nema vera skyldi hentistefnu í tilraunum sínum til að kallast nútímalegir.“
Brynjar rekur í kjölfarið þær breytingar sem hann segir Sjálfstæðisflokkinn hafa staðið fyrir á ýmsum kerfum og segir að þær hafi verið til framdráttar, meðal annars sjávarútvegskerfinu. „ Ef Friðjón telur það gagnlegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að kollvarpa fiskveiðistjórnunarkerfinu til að mæta kröfum „nútímans“ er hann á villigötum. Stöðugleiki og fyrirsjáanleiki eru lykilatriði í okkar mikilvægustu atvinnugrein,“ skrifar Brynjar.
Tækifærismennska og hentistefna
Brynjar gerir líka breytingar á stjórnarskrá að umtalsefni og segir að óæskilegt sé að þær taki tíðum breytingum. „Allra síst róttækum breytingum á stjórnskipan landsins af því að einhverjum kann að þykja það nútímalegt.“
Að hans mati er Sjálfstæðisflokkurinn óhræddur við breytingar, enda aflvaki breytinga og þróunar. „Hann er hins vegar ekki flokkur breytinga breytinganna vegna. Hann vill varðveita góð gildi í mannlegu samfélagi og á sama tíma auka frelsi einstaklingsins til orða og athafna. Það eru forsendur breytinga og þróunar hvers samfélags til að geta staðist harða samkeppni við aðra.“
Í lok greinar sinnar segir Brynjar að sjálfsagt sé enginn stjórnmálaflokkur eilífur. Þeir geti horfið ef stefnan og gildin sem þeir standi fyrir höfði ekki lengur til almennings. Það eigi þó örugglega ekki við Sjálfstæðisflokkinn. „Hins vegar er það vel þekkt að flokka dagi uppi stundi þeir tækifærismennsku og hentistefnu í stað þess fylgja stefnu sinni og tali fyrir þeim gildum sem flokkurinn stendur fyrir. Það gætu orðið örlög Sjálfstæðisflokksins ef farið yrði að ráðum Friðjóns R. Friðjónssonar. Þá getum við velt fyrir okkur hverjir verða steintröll og hverjir ekki.“