Faraldsfræðingurinn Michael Osterholm, sem sat í ráðgjafaráði Joe Bidens í kjölfar forsetakosninganna í haust, varar Bandaríkjamenn við því að hið breska afbrigði, sem er meira smitandi en flest önnur, eigi eftir að breiðast hratt út og ná yfirhöndinni í vor. Spáir hann því að veiruafbrigðið muni skella á Bandaríkjunum „líkt og fellibylur“.
Osterholm fer fyrir rannsóknarstofnun smitsjúkdóma við Háskólann í Minnesota. „Uppsveifla á líklega eftir að verða vegna þessa nýja afbrigðis frá Englandi á næstu sex til fjórtán vikum,“ spáði Osterholm í samtali við fréttamann NBC í gær.
Yfir 26 milljónir manna hafa greinst með kórónuveiruna í Bandaríkjunum og um 440 þúsund hafa látist vegna COVID-19. Osterholm hvetur stjórn Bidens til að grípa hratt til aðgerða svo bólusetja megi sem flesta á sem stystum tíma. Ráðleggur hann stjórnvöldum að leggja áherslu á fólk yfir 65 ára og gefa því sem flestu fyrri sprautu bóluefnis við við fyrsta tækifæri. Þannig verði mögulega hægt að koma í veg fyrir að hin bráðsmitandi afbrigði veirunnar sem uppgötvast hafa síðustu vikur nái fótfestu í landinu. „Þessi fellibylur er á leiðinni,“ sagði Osterholm.
Nýjustu rannsóknir sýna að breska afbrigðið er líklega um 30 prósent meira smitandi en flest önnur afbrigði veirunnar og hefur það breiðst hratt út í Bretlandi, Danmörku, Hollandi og fleiri Evrópulöndum síðustu vikur.
Breska afbrigðið hefur þegar greinst í Bandaríkjunum en þar eru raðgreiningar á veirunni enn sem komið er fátæklegar. Þar hefur faraldurinn geisað af miklum krafti allt frá upphafi. Ef breska afbrigðið nær ákveðinni útbreiðslu „munum við sjá eitthvað sem við höfum ekki ennþá séð í þessu landi. Ég sé þann fellibyl af mestu stærðargráðu undan ströndinni,“ sagði Osterholm við NBC.
Bandaríkjamenn eru yfir 320 milljónir. Tæplega 50 milljón skömmtum af bóluefni hefur verið dreift og um 30 milljónir þeirra hafa þegar verið nýttir.