Samfylkingin, Pírata og Viðreisn myndu samtals fá 26 þingmenn kjörna ef kosið yrði nú samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Það eru níu fleiri þingmenn en þessir þrír stjórnarandstöðuflokkar fengu haustið 2017. Samanlagt fylgi flokkanna þriggja er um 40 prósent en þeir fengu 28 prósent í síðustu kosningum. Samfylkingin yrði þeirra stærstur með 17 prósent fylgi og ellefu þingmenn, Viðreisn myndi fá um tólf prósent atkvæða og átta þingmenn og Píratar um ellefu prósent og sjö þingmenn. Þeir eru einu flokkarnir sem voru í framboði fyrir rúmum þremur árum sem myndu bæta við sig fylgi og þingmönnum ef kosið yrði í dag.
Þetta kemur fram í umfjöllun RÚV um nýja Þjóðarpúlsinn.
Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti flokkur landsins, hafi tapað um tveimur prósentustigum frá síðustu kosningum og mælist með 23 prósent fylgi þá myndi hann samt fá sama þingmannafjölda (16) ef gengið yrði til kosninga í dag, samkvæmt Gallup. Vinstri græn, sem myndu tapa um fjórum prósentustigum og fá í kringum 13 prósent atkvæða ef kosið yrði nú, myndu einungis tapa tveimur þingmönnum og fá níu. Framsókn, sem myndi tapa um tveimur prósentustigum og fá um níu prósent samkvæmt umfjöllun RÚV, myndu tapa einum þingmanni og fá sjö. Það þýðir að ríkisstjórnin gæti að óbreyttu haldið velli með minnsta mögulega meirihluta – 32 þingmönnum af 63 – þrátt fyrir að fylgi hennar hafi fallið úr 53 í 45 prósent.
Mikið af atkvæðum gætu fallið niður dauð
Ástæðu þessa má finna í því að töluvert magn atkvæða myndu falla niður dauð ef könnun Gallup yrði niðurstaða kosninga. Bæði Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkur Íslands mælast með um fjögur prósent fylgi hvor sem myndi ekki skila þeim inn manni á þing að óbreyttu. Slík staða myndi ýkja þingmannafjölda þeirra flokka sem kæmust inn umtalsvert og skapa ofangreinda stöðu, þar sem hægt yrði að fá meirihluta þingmanna með einungis 45 prósent fylgi.
Ýmiskonar stjórnarmynstur í kortunum
Ýmsir stjórnarmöguleikar eru í stöðunni samkvæmt könnun Gallup. Miðað við núverandi fylgisstöðu væri, líkt og áður sagði, hægt að halda núverandi ríkisstjórnarsamstarfi áfram. Í ljósi þess að tveir af upprunalegu 35 þingmönnum stjórnarflokkanna hafa þegar yfirgefið þá, og meirihlutinn telur nú einungis 33 þingmenn, yrði ekki stórkostleg breyting að fækka þingmönnunum á bakvið stjórnina niður í 32. Sú stjórn gæti styrkt sig með aðkomu Miðflokks (fimm þingmenn) eða Viðreisnar (átta þingmenn). Bæði Samfylkingin og Píratar hafa útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokk sem gerir það að verkum að útiloka verður allar mögulegar tegundir samstarfs sem skeyta þeim saman.
Hægt yrði að mynda félagshyggjustjórn frá miðju til vinstri sem innihéldi Samfylkinguna, Vinstri græn, Pírata og Framsóknarflokkinn. Slík stjórn myndi vera með 34 þingmenn.
Það væri líka hægt að ráðast í enduröpun á því mynstri sem er til staðar í stjórn Reykjavíkurborgar, þar sem Framsóknarflokknum yrði skipt út fyrir Viðreisn. Þá myndi stjórnarþingmönnunum fjölga um einn og þeir verða 35.
Ef mynda ætti stjórn frá hægri og inn á miðjuna yrði hún að innihalda fjóra flokka: Sjálfstæðisflokk, Viðreisn, Framsóknarflokk og Miðflokk. Slík stjórn myndi hafa 36 þingmenn.
Framsókn og Miðflokkur í vandræðum í Reykjavík
Gallup mældi líka fylgi eftir kjördæmum í nýjustu könnun sinni. Þar virðist athyglisverðasta niðurstaðan vera sú að Framsóknarflokkurinn næði ekki inn kjördæmakjörnum þingmanni í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, en þar verða ráðherrarnir Lilja Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason í oddvitasætum. Afar ólíklegt er að Miðflokkurinn næði inn kjördæmakjörnum þingmönnum í höfuðborginni, en það er í samræmi við aðrar kannanir sem birst hafa undanfarið.
Samfylkingin mælist sterkust í Reykjavík og myndi ná að verða stærsti flokkurinn í Reykjavíkurkjördæmi suður ef kosið yrði nú. Athyglisvert er að tveir stærstu flokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, eru að mælast jafn stórir í Norðausturkjördæmi, en þar sjá Vinstri græn fram á fylgistap að óbreyttu eftir brotthvarf Steingríms J. Sigfússonar úr oddvitasætinu.