Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur birt lista yfir þau starfsheiti hér á landi sem teljast til háttsettra opinberra starfa.
Þetta gerir Fjármálaeftirlitið til þess að uppfylla skyldur sínar samkvæmt reglugerð um einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla með tilliti til aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem tók gildi í fyrra.
Einstaklingar sem eru eða hafa verið háttsettir í opinberri þjónustu, nánasta fjölskylda þeirra og nánir samstarfsmenn eru nefnilega taldir vera í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla í skilningi laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Stjórnmálamenn, dómarar, opinberir stjórnarmenn og framkvæmdastjórar
Listinn sem Fjármálaeftirlitið hefur nú gefið út á að geta verið til hliðsjónar við mat á því hvort aðilar séu í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Á listanum eru allir þingmenn og ráðherrar, forseti Íslands og allir stjórnarmenn í stjórnmálaflokkum, eða aðilar í framkvæmdastjórn, eftir því sem á við, en það er misjafnt milli flokka.
Dómarar við íslenska dómstóla (þó ekki héraðsdómarar) og íslenskir dómarar við alþjóðadómstóla eins og Mannréttindadómstól Evrópu, EFTA-dómstólinn og Alþjóðlega hafréttardómstólinn eru einnig á listanum og það eru sömuleiðis hæstráðendur í Seðlabanka Íslands, seðlabankastjóri og varaseðlabankastjórar.
Íslendingar sem starfa sem framkvæmdastjórar eða stjórnarmenn fyrir alþjóðastofnanir á borð við EFTA og eftirlitsstofnun EFTA falla líka í þennan flokk, samkvæmt listanum frá Fjármálaeftirlitinu.
Sendiherrar Íslands og staðgenglar þeirra teljast einnig háttsettir opinberir starfsmenn og það gera einnig allir stjórnarmenn í opinberum fyrirtækjum, auk framkvæmdastjóra þeirra.
Þannig teljast stjórnarmenn til dæmis Ríkisútvarpsins, tónlistarhússins Hörpu og Íslandspósts allir vera háttsettir opinberir starfsmenn og sem slíkir eru þeir í skilgreindum áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla með tilliti til aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem tók sem áður segir gildi í fyrra.
Tilkynningarskyldir aðilar, til dæmis bankar, eiga að framkvæma aukna áreiðanleikakönnun þegar viðskiptamenn þeirra eru í slíkum áhættuhópi.
Fréttin hefur verið uppfærð: Tekið er fram að starf héraðsdómara telst ekki háttsett opinbert starf að mati Fjármálaeftirlitsins, en það láðist í fyrri útgáfu fréttarinnar.