Þjóðgarður þessi er algjörlega ótímabær. Engin sátt ríkir um hann í þjóðfélaginu. Ráðherra yrðu gefin óhemju mikil völd og ferðafrelsi og almannaréttur fótum troðinn. Núverandi náttúruverndarlög ættu að nægja og ef náttúran á að fá að njóta vafans er það betur gert með því að leyfa hálendinu að vera afskekkt, torsótt og fáfarið – á þann hátt fengist raunhæf öræfakyrrð.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögnum ferða- og útivistarfélaga um frumvarp um stofnun hálendisþjóðgarðs. Frestur til að skila umsögnum rann út í gær og um 140 umsagnir bárust frá stofnunum, félagasamtökum og einstaklingum. Af þeim tæplega tuttugu sem bárust frá ferða- og útivistarfélögum og heildarsamtökum þeirra eru aðeins tvær jákvæðar í garð frumvarpsins, umsagnir frá Ferðafélagi Íslands og Útivist. Bæði félögin gera þó nokkrar athugasemdir við frumvarpið.
Í öllum umsögnunum kemur fram að virðing fyrir náttúru og landi sé leiðarstef viðkomandi félagasamtaka og í flestum þeirra er tekið fram að rík áhersla sé lögð á að félagsmenn gangi vel um landið. Hins vegar er það einnig sameiginlegur þráður í þeim flestum að frumvarpið um stofnun hálendisþjóðgarðs þarfnist lengri og ítarlegri umræðu eigi að nást um það sátt í samfélaginu.
Þjóðgarður á hálendinu þarfnast mun lengri undirbúningstíma, segir til að mynda í umsögn Félags húsbílaeigenda, „það er að segja ef það er þörf fyrir hálendisþjóðgarð“. Þeir sem ferðist um á ferðabílum hafi síðustu ár upplifað að þeir ráði sér ekki lengur sjálfir. „Frelsið sem við höfum haft minnkar ár frá ári, við ráðum ekki lengur hvaða slóða við ökum og við ráðum ekki lengur hvar við stoppum, dveljum eða náttum.“
Félag leiðsögumanna með hreindýraveiðum leggst alfarið gegn áformum um miðhálendisþjóðgarð og telur þau ekki vera til þess fallin að stuðla að sátt um nýtingu og vernd svæðisins. „Ekki verður betur séð en að tilgangurinn sé að ná yfirráðum yfir því landi sem nú lýtur yfirráðum forsætisráðuneytisins og færa alla ákvarðanatöku frá forsætisráðuneyti og sveitarfélögum og þar með burtu frá nærsamfélögum sem mestra hagsmuna hafa að gæta.“
Ráðherra gefin óhemju mikil völd
Ferða- og útivistarfélagið Slóðavinir, sem í er fólk sem hefur áhuga á ferðalögum um landið á vélhjólum, leggst einnig „alfarið gegn framkomnu frumvarpi“ og segir framsetningu í því víða með þeim hætti að það gangi „þvert á viðteknar leikreglur lýðræðisins“.
Slóðavinir telja útfærslu mikilvægra þátta víða ábótavant og oftar en ekki séu mál afgreidd á þann hátt að ráðherra semji um þau reglur síðar, sýnist honum svo. „Ráðherra eru því gefin óhemju mikil völd inn í framtíðina án aðkomu annarra hagsmunaaðila, „telji“ hann þörf á.“
Ferðaklúbburinn 4x4, sem í eru á bilinu 4-5.000 félagsmenn, „hafnar algjörlega“ þeim hugmyndum sem koma fram í frumvarpinu. „Ef náttúran á að fá að njóta vafans þá er það betur gert með því að leyfa hálendinu að vera afskekkt, torsótt og fáfarið.“
Í ítarlegri umsögn sinni bendir félagið á að ótækt sé að koma fram með svo stórt mál, sem skipti stóra hópa í þjóðfélaginu miklu máli, í miðjum faraldri COVID-19 og samkomubanni. „Að keyra málið af stað um jól og áramót er algjörlega óskiljanlegt og sýnir svo ekki sé um villst að málið átti að fara hratt í gegn á tímum sem stórum félagasamtökum er erfitt að fjalla um málið á þann hátt sem þyrfti.“
Í umsögninni er áréttað að Ferðaklúbburinn 4x4 vilji standa vörð um ferðamenningu í tómstundaskyni á hálendi Íslands. „Sú rótgróna ferðamenning kallar ekki á þjóðgarðsstofnun.“
Jákvætt framlag
Ferðafélag Íslands telur að stofnun þjóðgarða og friðlýsingar í tengslum við þá sé mikilvæg leið til að tryggja „að hin einstaka náttúra landsins fái staðið óspillt fyrir komandi kynslóðir að njóta“. Á sama hátt er það mikilvægt að mati félagsins að þær reglur sem muni gilda um dvöl og för í þjóðgörðum séu til þess fallnar að tryggja rétt almennings til að ferðast um landið og njóta útivistar þar. „FÍ telur framlagt frumvarp til laga um hálendisþjóðgarð jákvætt framlag til náttúruverndar og útivistar.“
Ferðafélagið Melrakkar, félagsskapur fólks sem ferðast um á fjórhjólum og böggý-bílum, leggst gegn frumvarpinu og vill frekar hjálpa til við merkingar á leiðum og eru félagsmenn tilbúnir „að fræða ferðamenn sem gætu orðið á vegi okkar um hversu verðmætt er að ganga vel um,“ segir í umsögn Melrakka. „Við berum ómælda virðingu fyrir landinu og okkar eina markmið er að njóta félagsskapar við hvert annað og hins stórbrotna útsýnis sem Ísland hefur upp á að bjóða.“ Fræða þurfi ferðafólk almennt betur en það er að mati félagsins „ekki svo að það þurfi að loka miðhálendinu til þess að vernda það“.
Að mati félagsins er frumvarpið „meingallað“ í þeirri mynd sem það birtist nú. „Frestum frumvarpinu og vinnum það betur með öllum sem að því koma – ekki einungis útvöldum.“
Verulegar skorður settar á flug
Fisfélag Reykjavíkur skorar á stjórnvöld að hafna frumvarpinu í því formi sem það er lagt fram núna. „Frumvarpið gengur of langt í boðum og bönnum án þess að sýnt hafi verið fram á nauðsyn þeirra. Sérstaklega vill Fisfélag Reykjavíkur benda á 18. gr. þar sem öllu flugi eru settar verulegar skorður umfram aðra ferðamáta,“ segir í umsögn félagsins. Í svipaðan streng er tekið í umsögn Flugmálafélags Íslands. Innan félagsins starfa nær öll félög, samtök og hópar sem tengjast flugstarfsemi og flugíþróttum á Íslandi.
Tvö hestamannafélög sendu inn umsögn og sömuleiðis Landssamband hestamanna sem í eru um 12.500 hestamenn. Öll leggjast þau gegn samþykkt frumvarpsins að svo stöddu og telja að of mörgum spurningum sé enn ósvarað. Hestamenn óttast að með stofnun hálendisþjóðgarðs verði aðgengi og frelsi þeirra að hálendinu skert, aðgengi sem hefur verið til staðar frá landnámi. „Reynsla hestamanna af þeim þjóðgörðum sem þegar eru til staðar sýnir að hömlur eru settar á ferðir hestahópa um þjóðgarða.“
Almannaréttur á sér langa hefð á Íslandi segir ennfremur í umsögninni, og helgast af því viðhorfi að náttúra Íslands sé sameiginleg gæði landsmanna sem öllum sé jafnfrjálst að njóta. „Mikilvægt er að standa vörð um þennan rétt, en honum fylgir jafnframt skylda til að ganga vel um landið.“
Hvað er þjóðgarður án þjóðar?
Landssamband íslenskra vélsleðamanna segir í sinni umsögn að náttúra Íslands sé óaðgengileg að vetri og sjái sjálf um „að vernda landið fyrir ágangi massatúrisma. Sú fyrirætlan að leggja um það bil þriðjung flatarmáls alls Íslands undir valdheimildir þjóðgarðsvarða mun skaða náttúruvernd og ásýnd hennar um ókomin ár. Reynslan af valdboði og ákvörðunum í Vatnajökulsþjóðgarði hefur sýnt okkar félagsmönnum að þjóðgarðsvörðum er ekki treystandi fyrir svo viðamiklum valdheimildum.“ Í niðurlagi umsagnarinnar segir að frumvarpið sé umdeildara en af hafi verið látið og spurt: „Hvað er þjóðgarður án þjóðar!“
Skotveiðifélag Íslands, segir að meðan að ekki sé tryggt að almannaveiðiréttur innan fyrirhugaðs þjóðgarðs verði óskertur leggist félagið alfarið gegn frumvarpinu. „Það er því mat SKOTVÍS að kjósi þingið að halda frumvarpinu til streitu, þurfi að gera á því veigamiklar efnislegar breytingar. Þær þurfi að ræða og kynna almenningi og skapa um málið góða almenna sátt, áður en lengra verður haldið. Á tímum mikilla samkomutakmarkana og heimsfaraldurs er erfitt að sjá að kynning og samtal um málið geti farið vel fram. Líklega er ekki tímabært að stofna svo stóran þjóðgarð núna. Kannski er rétt að gefa Vatnajökulsþjóðgarði tíma til að sýna sig og sanna áður en lengra verður gengið.“
Ferðafélagið Útivist rifjar það upp í sinni umsögn að það hafi verið aðili að samstarfsverkefni sem ýtt var úr vör í ársbyrjun 2016 sem að stóðu 28 útivistar- og náttúruverndarsamtök, auk samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu. Markmið samstarfsins var að skapa víðtæka sátt um þjóðgarð á miðhálendi Íslands á grundvelli viljayfirlýsingar sem samstarfsaðilarnir undirrituðu. Í þessari viljayfirlýsingu voru settar fram forsendur er varða náttúruvernd, aðgengi og réttindi almennings í þjóðgarðinum og tækifæri og aðkomu hagaðila (náttúruverndarsamtaka, útivistarhreyfinga og ferðaþjónustu) að stjórnun garðsins. „Afstaða Ferðafélagsins Útivistar til hálendisþjóðgarðs er grundvölluð á þessari viljayfirlýsingu og styður félagið stofnun þjóðgarðs, þar sem tryggt er að framangreindar forsendur haldi,“ segir í umsögninni og að Útivist leggi einkum áherslu á nokkur atriði:
- Að réttur almennings til útivistar og náttúrufræðslu innan þjóðgarðsins verði tryggður.
- Að fullt tillit verði tekið til áratuga nýtingar útivistarfélaganna á miðhálendinu og allar nauðsynlegar breytingar sem kunna að eiga sér stað verði teknar í fullu samráði við fulltrúa þessara hagsmunahópa.
Útivist gerir svo „alvarlega athugasemd“ við rúmar gjaldtökuheimildir þjóðgarðsins sem samkvæmt orðalagi í einni grein frumvarpsins ná ekki aðeins til greiðslu fyrir veitta þjónustu, heldur einnig almennar gjaldtökuheimildir á borð við gistingu innan þjóðgarðsins og leyfisgjöld fyrir þjónustusamninga. Telur félagið „ótækt“ að ákvæðið sé opið fyrir slíkri túlkun og því lögð til eftirfarandi breyting á orðalagi: „Þá er hálendisþjóðgarði heimilt að innheimta gjald fyrir gistingu í skálum og tjaldsvæðum sem rekin eru af þjóðgarðinum.“
Gríðarlegur kostnaður við uppbyggingu
Útivist segir ennfremur að „eins og mörg dæmi um framkvæmdir á vegum ríkisins innan Vatnajökulsþjóðgarðs sýna“, megi gera ráð fyrir að kostnaður við uppbyggingu innviða og þjónustustofnana verði „gríðarlegur“ sem til stendur að innheimta með þjónustugjöldum. „Afkoma af starfsemi ferðafélaganna ber ekki slíka gjaldtöku. Því er nauðsynlegt að endurmeta frá grunni fyrirhugaða fjármögnun á uppbyggingu innviða með áherslu á bein framlög á fjárlögum fremur en álögur á ferðamenn.“
Lokaorð umsagnarinnar eru á þá leið að afstaða Útivistar til þjóðgarðs á hálendinu hafi almennt verið jákvæð en að ákveðnum forsendum uppfylltum. Er það von félagsins að umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis fallist á athugasemdir sem fram koma í umsögninni „sem eru forsenda þess að það geti mælt með samþykkt þessa frumvarps“.