Brú yfir Kleppsvík, sem tillaga er gerð um í nýrri skýrslu starfshóps og talin er fýsilegri kostur en jarðgöng yfir í Gufunes, yrði engin smásmíði. Þegar orðið „lágbrú,“ er nefnt eru eflaust fáir sem sjá fyrir sér brú af þeirri stærðargráðu sem teiknuð hefur verið upp og stefnt er að, sem fýsilegasta kosti.
Samkvæmt uppfærðri tillögu frá Eflu verkfræðistofu er gengið út frá því að brúin verði 1.172 metra löng og því lengsta brú á Íslandi. Hún er næstum því 300 metrum lengri en hin aflagða Skeiðarárbrú á Skeiðarársandi, til samanburðar. Um helmingur brúarinnar yrði á landi í Sundahöfn til móts við Holtaveg en um helmingur yfir haffletinum.
Brúin, eins og hún er teiknuð upp á tillögunni, rís hæst í um 35 metra hæð yfir hafflötinn og áætlað er að næstum því 30 metra há skip geti siglt undir hana, í 100 metra breiðri siglingarennu.
Í reynd hefur verið fallið alveg frá hugmyndum um „lágbrú“ á þessum stað, en starfshópnum var ætlað að skoða mismunandi útfærslur að brú sem líklegt væri að sátt næðist um.
Brúin þarf að vera svona há til þess að athafnasvæðið í Sundahöfn, sem verður undir fyrirhugaðri brú, verði ekki fyrir raski. Áfram á að vera hægt að sigla stórum skipum inn að viðlegukanti sem er innar í Kleppsvíkinni.
Faxaflóahafnir, sem áttu fulltrúa í starfshópnum, höfðu áður lýst hugmyndinni um lágbrú á þessum stað sem „rothöggi“ fyrir starfsemi Sundahafnar.
Tæplega 30 milljarðar í Sundabrú eina og sér
Þessi brú yrði mikið mannvirki, sem endurspeglast í kostnaðartölunum sem settar eru fram í skýrslu starfshópsins, en brúin ein og sér er verðmetin á 29,5 milljarða króna. Áætlað er að fullbúnar tengingar við Sæbraut kosti 6,8 milljarða og að tengingar í Gufunesi við Borgaveg og Hallsveg kosti 7,5 milljarða króna.
Heildarkostnaðurinn við þverun Kleppsvíkur er því metinn 43,7 milljarðar króna og við það bætist kostnaður við leiðina á milli Gufuness og Kjalarness, sem áætlaður er að verði 25 milljarðar. Kostnaður við Sundabraut með brúarleiðinni er því áætlaður 69 milljarðar í heild.
Gengið er út frá því að brúin verði í heildina 26 metra breið. Gert er ráð fyrir fjórum akreinum fyrir bíla á brúnni eða tveimur í hvora átt og svo 5,7 metra breiðum göngu- og hjólastíg, en það var einmitt talið Sundabrú til tekna umfram Sundagöng í mati starfshópsins að þar gætu allir ferðamátar farið um.
Vert er þó að taka fram að báðir kostir þóttu raunhæfir, að mati starfshópsins, en jarðgangaleiðin er metin um 14 milljörðum dýrari.
Samskip telur að lengja þurfi Vogabakka áður en nokkuð er gert varðandi Sundabrú
Fram kemur í skýrslu starfshópsins að tillagan að Sundabrú sem hér er fjallað um hafi verið kynnt helstu hagsmunaaðilum við Sundahöfn. Ekki hafi verið gerðar verulegar athugasemdir við útfærslunar, nema efnislegar athugasemdir sem komu frá Samskipum.
Í skýrslu starfshópsins má lesa að Samskip telur að nauðsynlegt sé að lengja Vogabakka til norðurs áður en framkvæmdir við Sundabrú hefjast. Að öðrum kosti telur fyrirtækið að starfsemi þess muni svo gott sem stöðvast á framkvæmdatímanum.