„Við þurfum ekki að skrifa fleiri skýrslur,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á blaðamannafundi í dag, þar sem hann kynnti niðurstöðu starfshóps um legu Sundabrautar. Fram kom í máli ráðherra að brú væri talin afgerandi betri kostur en jarðgöng til þess að tengja Sæbraut við Gufunes.
Heildarkostnaður við Sundabraut er metinn tæpir 70 milljarðar króna og áætlað er að verkefnið verði unnið í samvinnu ríkis- og einkaaðila. Þegar af því verður, en talið er raunhæft að framkvæmdir gætu hafist árið 2025 og þeim lokið undir lok áratugarins.
Á fundinum kom fram í máli ráðherra að Sundabrú hefði verið talinn verið hagkvæmari kostur en jarðgöng, í skýrslu starfshópsins, sem nálgast má hér.
Starfshópurinn taldi vega þyngst að kostnaður við brúarleið væri lægri, brú hentaði betur fyrir alla ferðamáta og almenningssamgöngur og að brú bætti samgöngur innan höfuðborgarsvæðisins og til og frá borginni með því að dreifa umferð, minnka álag á öðrum stofnvegum og stytta ferðatíma.
„Niðurstöður um að Sundabrú sé hagkvæmari kostur eru afgerandi og að mínu mati er ekkert því til fyrirstöðu að taka næstu skref og hefja framkvæmdir við Sundabraut. Þetta er ekki spurning hvort af verkefninu verði heldur hvenær. Núna er góður tími að fara í opinberar framkvæmdir. Undirbúningur verksins, hönnun og verklegar framkvæmdir skapa mikilvæga atvinnu og auka hagvöxt í landinu,“ sagði Sigurður Ingi í kynningu sinni á fundinum.
Fram kemur í tilkynningu á vef stjórnarráðsins að starfshópurinn telji að framkvæmdir við Sundabraut geti hafist árið 2025 og lokið 2029-2030.
„Hópurinn telur að undirbúningur, rannsóknir, hönnun, mat á umhverfisáhrifum og vinna við breytingar á skipulagsáætlunum taki að lágmarki 4 ár. Þá megi áætla að framkvæmdatími við byggingu Sundabrúar og aðliggjandi vega verði um 4-5 ár,“ segir á vef stjórnarráðsins.
Vinna starfshóps dróst á langinn
Sigurður Ingi skipaði starfshópinn síðasta vor og hann hefur verið að störfum síðan. Fyrst átti niðurstaðan að liggja fyrir í ágúst, en dregist hefur að ljúka vinnunni, þar til núna nýlega og segist ráðherra hafa fengið skýrsluna í hendur um liðna helgi.
Hópnum var falið að meta hvort fýsilegra væri að Sundabraut yrði skipulögð sem jarðgöng frá Laugarnesi yfir í Gufunes eða þá að hún færi lágbrú sem þvera myndi hafnarsvæði Sundahafnar við Kleppsvík.
Vegagerðin leiddi hópinn, en í honum voru líka fulltrúar frá Reykjavíkurborg, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Faxaflóahöfnum. Þeir tveir möguleikar sem hópurinn var að velja á milli voru þeir tveir sem fýsilegastir þóttu í mati annars starfshóps, sem skilaði af sér skýrslu árið 2019.
Legið hefur fyrir að taka þyrfti ákvörðun um hvernig tengjast ætti á milli Sæbrautar og Gufuness áður en hægt yrði að taka ákvörðun um hvernig Sundabraut myndi liggja alla leið að Vesturlandsvegi í Kollafirði.
Fleiri líklegir til að keyra um brú
Fyrir hefur legið að ákveðnir gallar eru við báðar leiðirnar sem starfshópurinn var beðinn um að leggja mat sitt á. Brú, eins og nú er stefnt að, mun að einhverju leyti skerða hafnarsvæðið við Sundahöfn þrátt fyrir að hún verði ekki lág og jarðgöng yrðu mjög dýr og fyrirsjáanlega ekki jafn mikið nýtt og brú.
Fólk sem er statt í Skeifunni á bílnum sínum mun enda ólíklega keyra niður í Laugarnes til þess að fara yfir í Grafarvog eða áleiðis upp í Mosfellsbæ í jarðgöngum, í stað þess að velja Ártúnsbrekkuna. Þó að það væri kannski smá traffík. Þetta höfðu umferðargreiningar sýnt fram á – að jarðgöng myndu laða að sér minni umferð en brú.
Sigurður Ingi var búinn að koma því á framfæri að hann væri hrifnari af brú og gladdist hann yfir því að sú sannfæring hans hefði komið út úr vinnu starfshópsins.
Kostirnir endurmetnir frá grunni
Það sem starfshópnum var nákvæmlega falið að gera var að í fyrsta lagi að endurmeta hönnun og legu og gera nýtt kostnaðarmat fyrir bæði jarðgöngin og brúna. Leggja átti fram ný frumdrög fyrir báðar framkvæmdirnar og taka mið af uppbyggingaráformum sem finna mátti í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.
Í annan stað átti starfshópurinn að greina þá valkosti sem yrðu fyrir hendi varðandi breytt skipulag Sundahafnar, ef lágbrú yrði fyrir valinu. Fram kom í skipunarbréfi að í þeirri vinnu fælist að leggja mat á áhrif á umferð, umhverfisþætti, nærumhverfi, atvinnustarfsemi og þróunarmöguleika Sundahafnar.
Einnig var hópnum falið að skoða hvort hægt væri að koma fram með nýja hönnun á brú sem sátt næðist um og það er það sem var ofan á.
Sundabraut er ekki hluti samgöngusáttmálans
Oft er rætt um Sundabrautina í samhengi við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og stundum virðist sá misskilningur vera uppi í umræðu um málið að framkvæmd Sundabrautarinnar sjálfrar sé hluti af framkvæmdaáætlun sáttmálans, sem gerður var á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins.
Svo er hins vegar ekki, heldur er Sundabraut eitt þeirra samgönguverkefna sem opnað hefur verið á að fari í einkaframkvæmd. Í samgöngusáttmálanum er þó kveðið á um að við endanlega útfærslu framkvæmda verði „sérstaklega hugað að greiðri tengingu aðliggjandi stofnbrauta svo sem Sundabrautar inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins.“
Hvað þetta þýðir nákvæmlega er ansi loðið og hefur verið túlkað með mismunandi hætti af stjórnmálamönnum sem hafa ólíka sýn á framtíð samgangna á höfuðborgarsvæðinu.
En nú þarf ekki að skrifa fleiri skýrslur, samkvæmt Sigurði Inga, Sundabrú yfir Kleppsvík er það sem stefnt verður að.