Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur veitt Arion banka heimild til að kaupa aftur eigin hlutabréf að andvirði 15 milljarða króna. Heimildin nær til allt að 8,7 prósent af útgefnu hlutafé bankans. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birtist í Kauphöllinnni í dag.
Líkt og arðgreiðslur eru kaup á eigin bréfum (e. buyback) ein leið fyrirtækja til að gefa eigendum sínum hluta af eigin fé. Í slíkum kaupum greiðir fyrirtækið markaðsvirði ákveðins hluta af útgefnu hlutafé til hluthafa sinna.
Samkvæmt tilkynningunni sem birtist á vef Kauphallarinnar veittu hluthafar Arion banka stjórn bankans endurnýjaða heimild til að kaupa allt að 10 prósent af útgefnu hlutafé þess á síðasta ársfundi bankans í fyrra. Hins vegar voru fyrirhuguð endurkaup sett á bið eftir að heimsfaraldurinn skall á og Seðlabankinn gaf út tilmæli til bankanna um að greiða ekki til hluthafa sinna á meðan hið opinbera yki framboð fjármagns í fjármálakerfinu með ýmsum aðgerðum.
Á síðustu mánuðum hefur Arion banki svo gefið til kynna að hann hygðist greiða hluta af eigin fé til hluthafa, en í síðasta ársfjórðungsuppgjöri sagðist bankinn vera með of mikið eigið fé sem nær ómögulegt væri að ávaxta í takt við eigin markmið.
Arion banki minnist einnig á eiginfjárstöðu sína í tilkynningu sinni, en þar segir hann hana vera mjög sterka. Bankinn minnist einnig á skuldabréfaútboð bankans í fyrra, sem veitti bankanum fé að andvirði 13 milljarða króna.
Ekki hefur enn verið ákveðið að ráðast í endurkaupaáætlunina, en áform un framkvæmd hennar bíða nú ákvörðunar stjórnar Arion banka. Upplýst verður um ákvörðun hennar samhliða birtingu ársuppgjörs bankans á miðvikudaginn.