Starfsmenn embættis skattrannsóknarstjóra komu í höfuðstöðvar íslensks bókhalds- og þjónustufyrirtækis þann 19. maí í fyrra með beiðni um að fá afhent gögn um félag sem skráð er í Mið-Ameríkuríkinu Belís. Tekist hefur verið á um það fyrir dómstólum hvort gagnaöflunin hafi verið lögmæt. Nýleg niðurstaða Landsréttar er að það hafi hún verið.
Theodóra Emilsdóttir, settur skattrannsóknarstjóri, segist í svari við fyrirspurn Kjarnans ekki geta veitt neinar upplýsingar eða staðfestingu á því um hvaða félög er að ræða, en efnisatriði í úrskurðum Landsréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur gefa þó til kynna að þarna sé fjallað um gagnaöflun sem tengist yfirstandandi rannsókn skattrannsóknarstjóra á Samherjasamstæðunni.
Í úrskurði Landsréttar frá 25. janúar og úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. desember eru öll nöfn fyrirtækja og einstaklinga afmáð, en þó má lesa að eigandi félagsins í Belís sé félag á Kýpur sem sé í eigu íslensks manns, sem sé með skattalega heimilisfesti á Spáni og hafi ekki verið með heimilisfesti á Íslandi í um 16 ár.
Skattrannsóknarstjóri lofaði að skoða ekki gögnin fyrr en lögmætið væri ljóst
Deilt hefur verið um heimild skattrannsóknarstjóra til þess að skoða bókhald þessa eina fyrirtækis í Belís frá því skömmu eftir að það fékkst afhent frá endurskoðandanum í maí.
Fram kemur í úrskurðinum að nokkrum dögum eftir að skattrannsóknarstjóri fékk gögnin í hendur, eða 28. maí, hafi embættið farið fram á að Belís-félagið og endurskoðandinn veittu frekari gögn um reksturinn. Einnig var óskað var eftir því að eigandi félagsins kæmi til skýrslugjafar þann 11. júní.
Félagið hafnaði að afhenda frekari gögn, í svarbréfi til skattrannsóknarstjóra 5. júní. Í bréfinu frá lögmanni Belís-félagsins var því einnig komið á framfæri að endurskoðunarfyrirtækið mæltist til þess að skattrannsóknarstjóri endurkallaði beiðni sína eða bæri hana undir dómstóla.
Þessu bréfi svaraði skattrannsóknarstjóri 12. júní og sagðist hafa verið heimilt að afla umræddra gagna og taldi að rétt hefði verið staðið að öflun þeirra. Einnig sagði skattrannsóknarstjóri að eðlilegra væri að endurskoðunarfyrirtækið færi sjálft með kröfu sína fyrir dóm.
Embættið lýsti því þó yfir að gögnin yrðu ekki skoðuð fyrr en búið væri að leysa úr ágreiningi um lögmæti beiðnarinnar, sem nú hefur verið gert.
Grunur á að raunverulegum yfirráðum hafi verið leynt
Í úrskurði Landsréttar má lesa að rannsókn skattrannsóknarstjóra beinist að bókhaldi og skattskilum íslensks félags og að því félagi hafi verið tilkynnt bréflega 19. maí í fyrra að rannsókn væri hafin á skattskilum þess. Sú rannsókn beinist meðal annars að ætlaðri skattskyldu vegna hagnaðar þessa félags í Belís á árunum 2013-2017.
Í greinargerð sem skattrannsóknarstjóri sendi Landsrétti og vísað er til í úrskurðinum kemur fram að grunur leiki á því að íslenska félagið hafi leynt raunverulegu eignarhaldi eða stjórnunarlegum yfirráðum sínum á Belís-félaginu, sem væri skráð í lágskattaríki.
Með því hefði íslenska félagið komið Belís-félaginu undan skattskyldu hér á landi vegna tekna á rekstrarárunum 2013-2016. Samkvæmt úrskurði Landsréttar er það mat skattrannsóknarstjóra að gögnin, sem nú hefur komið í ljós að aflað var með lögmætum hætti, kunni að hafa „verulega þýðingu“ við rannsókn málsins.
Áhöld hafa áður verið uppi um það hvort erlendum félögum innan Samherjasamstæðunnar hafi sumum hverjum í reynd verið stjórnað frá Íslandi, af íslenskum einstaklingum.
Þetta var til dæmis álitaefni í máli Seðlabanka Íslands gegn Samherja, en að mati bankans var þónokkrum félögum samstæðunnar í reynd stjórnað frá Íslandi og því hefðu erlendu félögin átt að skila gjaldeyri til landsins eins og innlendir aðilar.
„Þó að þetta væri sölufélag sem velti milljörðum þá var enginn sem tók upp símann og tók við sölupöntun,“ sagði Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður Seðlabankans fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í septembermánuði, um félagið Katla Seafood Limited, sem eitt sinn var skráð í Belís í Mið-Ameríku en síðar á Kýpur.
Eins og Kjarninn sagði frá um helgina virðist það hvaða ákvarðanir í rekstri erlendra félaga Samherjasamstæðunnar voru teknar á Íslandi og hverjar í útlöndum einnig skipta máli í rannsókn embættis héraðssaksóknara.
Héraðssaksóknari fékk í byrjun desember bókhald Samherjasamstæðunnar afhent frá endurskoðunarskrifstofunni KPMG með dómsúrskurði. Embættið fékk einnig upplýsingar um vinnslu einnar skýrslu sem KPMG vann fyrir Samherja á árunum 2013 og 2014 og fól í sér greiningu á skipulagi samstæðunnar á þeim tíma.
Samkvæmt drögum að skýrslu frá sérfræðingum KPMG, sem byggði m.a. á viðtölum við starfsfólk Samherjasamstæðunnar, var forstjórinn og stjórnarformaðurinn Þorsteinn Már Baldvinsson nær einráður í fyrirtækinu og með alla þræði í hendi sér.