Tap Icelandair Group á árinu 2020 var 51 milljarður króna. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands vegna uppgjörs síðasta árs.
Tap félagsins á árinu 2019 var 7,8 milljarðar króna og á árinu 2018 var það um 6,8 milljarðar króna. Því hefur samstæðan tapað tæplega 66 milljörðum króna á síðustu þremur árum.
Í tilkynningunni segir að sætaframboð Icelandair hafi dregist saman um 81 prósent á síðasta ári og farþegafjöldi um 83 prósent.
Eigið fé nam 29,7 milljörðum króna í lok síðasta árs árs og eiginfjárhlutfall lækkaði úr 29 prósent í 25 prósent frá fyrra ári, leiðrétt fyrir tímabundnum áhrifum áskriftarréttinda. Lausafjárstaða félagsins nam 42,3 milljörðum króna í lok árs 2020, þar af var handbært fé og lausafjársjóðir að fjárhæð 21,6 milljarðar króna.
Enn mikil óvissa
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að árið 2020 hafi verið mest krefjandi ár flugsögunnar. En sé fyrir dyrum veruleg óvissa. „Þróun faraldursins, dreifing bóluefna og hvernig reglur á landamærum þróast mun skipta sköpum varðandi framhaldið. Við erum hins vegar hóflega bjartsýn að geta aukið flug frá og með öðrum ársfjórðungi þessa árs.“
Hann segist þess fullviss að það verði talsverð tækifæri fyrir Ísland og þar með leiðakerfi Icelandair eftir faraldurinn. „Ísland verður áfram eftirsóttur áfangastaður ferðamanna og, vegna breytinga í samkeppnisumhverfinu, sjáum einnig aukin tækifæri í tengiflugi milli Evrópu og Norður Ameríku í gegnum Ísland.“
Hluthöfum fjölgaði mikið í fyrra
Icelandair Group hélt hlutafjárútboð í september í fyrra til að ná sér í nýtt fé vegna rekstrarerfiðleika sem skapast höfðu vegna kórónuveirufaraldursins. Félagið ætlaði sér að safna að minnsta kosti 20 milljörðum króna í útboðinu. Hægt yrði að hækka þá fjárhæð í 23 milljarða króna ef umframeftirspurn yrði.
Alls bárust yfir níu þúsund áskriftir upp á alls 37,3 milljarða króna. Umframeftirspurn var því 85 prósent, bæði frá fagfjárfestum og almennum fjárfestum. Nýjum hlutum fylgdu líka 25 prósent áskriftarréttindi, eða sem nemur 5,75 milljörðum hluta. Það þýðir að hver og einn sem keypti getur bætt við sig 25 prósent af því sem viðkomandi skráði sig fyrir í viðbót á sama gengi og var í hlutafjárútboðinu, en það var ein króna á hlut.
Stjórn Icelandair Group ákvað að samþykkja ekki allar áskriftir.
Mikil eftirspurn var hjá almennum fjárfestum í útboðinu og fjöldi hluthafa í félaginu varð yfir ellefu þúsund í kjölfar þess. Þeir eru nú um 13 þúsund talsins og hefur fjölgað um níu þúsund frá því sem áður var.