Losun hitunargilda, svokallaðra CO2-ígilda, frá íslenska hagkerfinu drógust saman um 16,3 prósent milli áranna 2019 og 2020. Frá því að árslosun Íslands náði hámarki, 2018, hefur losunin dregist saman um tæp 28 prósent.
Þetta kemur fram í nýjum bráðabirgðatölum um losun gróðurhúsalofts frá hagkerfi Íslands sem Hagstofa Íslands heldur utan um.
Tölurnar eru byggðar á oftslagsbókhaldi hagkerfisins (AEA bókhaldi) sem Hagstofan gefur út árlega í samræmi við reglur Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. AEA bókhaldið byggir meðal annars á loftslagsskýrslu Íslands (NIR), sem Umhverfisstofnun skilar til loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna, og orkubókhaldi Íslands sem Orkustofnun skilar til Alþjóða orkuráðsins (IEA).
Minna flug lykilbreyta
Stærsta ástæðan fyrir minni losun er að slík vegna flugrekstrar hefur dregist gríðarlega saman á skömmum tíma. Losun hér tekur eingöngu tillit til reksturs íslenskra félaga, en ekki losunar vegna flugferða erlendra flugfélaga sem hafa viðkomu á Íslandi.
Einn fylgifiskur þess mikla vaxtar sem var í ferðaþjónustu á árunum 2011 og fram á árið 2019, var mikil aukning losunar á gróðurhúsalofttegundum, vegna vaxtar í flugi.
Losun vegna flugrekstrar náði hámarki á því ár, 2018, þegar þrjú íslensk flugfélög buðu upp á millilandaflug milli Íslands og annarra landa: Icelandair, WOW air og Primera Air.
Primera Air varð hins vegar gjaldþrota seint á árinu 2019 og WOW air for í þrot snemma árs 2019. Auk þess dróst flug Icelandair saman á árinu 2019 vegna kyrrsetningar á 737 MAX vélum félagsins frá Boeing-framleiðandanum. Milli áranna 2018 og 2019 dróst losun vegna flugs enda saman um 44 prósent.
Losun vegna flugs og heimilisbíla mældist minni
Sú þróun hélt áfram á síðasta ári, en nú var helsti áhrifavaldurinn kórónuveirufaraldurinn sem lamaði flugsamgöngur út um allan heim og leiddi af sér stórtækar ferðatakmarkanir. Þar er nánast einvörðungu um samdrátt á flugi á vegum Icelandair að ræða. Alls fækkaði ferðamönnum sem heimsóttu Ísland úr tæpum tveimur milljónum árið 2019 í 479 þúsund í fyrra, eða um 76 prósent.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar var losun á fjórða ársfjórðungi síðasta árs 25,5 prósent minni en á sama ársfjórðungi árið áður.
Losun vegna aksturs heimilisbíla mældist sjö prósent minni og losun vegna flugrekstrar var 36,3 prósent minni á fjórða ársfjórðungi en hún var á sama ársfjórðungi árið 2019. losun frá iðnaði jókst hins vegar um 6,8 prósent milli ára þegar horft er á síðustu þrjá mánuði hvers árs einvörðungu.