Sjávarútvegsfyrirtækið Samherji hefur kvartað til nefndar um dómarastörf vegna vinnubragða dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur, sem Landsréttur sagði nýlega „aðfinnsluvert“ að hefði ekki krafið saksóknara um rannsóknargögn til stuðnings kröfu sinni um að fá gögn frá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG í byrjun desember. Eins hefur fyrirtækið kvartað til nefndar um eftirlit með lögreglu vegna „framferðis“ saksóknara í málinu.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Samherja í dag. Eins og Kjarninn sagði frá á laugardag fékk Héraðsdómur Reykjavíkur heimild til þess að sækja gögn og upplýsingar í þágu rannsóknar á Samherjasamstæðunni til endurskoðunarfyrirtækisins KPMG. Þessi heimild var veitt með dómsúrskurði 3. desember.
Samherji segir í yfirlýsingu sinni að ranglega hafi verið vísað til umræddra gagna sem bókhaldsgagna í fjölmiðlum og segir fyrirtækið að um sé að ræða „svokölluð endurskoðunargögn sem endurskoðendum er skylt að geyma, lögum samkvæmt, í sjö ár hið minnsta.“
Fyrirtækið segir að með úrskurðinum hafi ekki einungis lögbundinni þagnarskyldu verið aflétt af endurskoðendum KPMG, heldur einnig rofinn trúnaður lögmanna, enda hafi gögn sem embætti héraðssaksóknara fékk með úrskurðinum verið „í vörslum bæði endurskoðenda og lögmanna hjá KPMG og dótturfélögum.“
Samherji segir í yfirlýsingu sinni í dag fyrst hafa fengið vitneskju um það að gögnin hefðu verið sótt til KPMG í janúarmánuði. Embætti héraðssaksóknari fór með kröfu sína til Héraðsdóms Reykjavíkur og var hún sett fram án þess að KPMG væri látið vita fyrirfram, en það var að sögn embættisins til þess að vernda rannsóknarhagsmuni. Samherji gagnrýnir í yfirlýsingu sinni að dómarinn hafi talið sig bæran til þess að taka ákvörðun um þetta án sönnunargagna.
Það sem Samherji er að kvarta yfir er að dómarinn í héraðsdómi, Ingibjörg Þorsteinsdóttir, hafi ekki skoðað sérstaklega þau rannsóknargögn sem lágu til grundvallar kröfu um gögn og upplýsingar frá KPMG og að ranglega hafi verið greint frá því í úrskurði og þingbók að slík gögn hefðu legið frammi við uppkvaðningu úrskurðarins.
„Í því skyni að ganga úr skugga um hvort lagaskilyrði væru uppfyllt fyrir því að fallast á kröfu sóknaraðila hefði héraðsdómara verið rétt að krefja sóknaraðila um þessi gögn áður en hann tók kröfuna til úrskurðar. Er aðfinnsluvert að svo var ekki gert,“ segir um þetta í úrskurði Landsréttar.
Landsréttur vísaði kæru Samherja vegna málsins frá á grundvelli aðildarskorts. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu í gær, 9. febrúar og minntist ekki sérstaklega á aðfinnslur Landsréttar í sinni umfjöllun um málið.
Samherji segir að vinnubrögðin sem Landsréttur setti út á hljóti að kalla á viðbrögð frá hagsmunasamtökum bæði endurskoðenda og lögmanna og jafnframt hjá ríkissaksóknara, sem hafi lögbundið eftirlitshlutverk um framkvæmd ákæruvalds hjá lögreglustjórum og héraðssaksóknara.