Greiðslumiðlunarfyrirtækið Valitor tapaði 1.825 milljónum króna á síðasta ári og rekstrartekjur félagsins voru 4,8 milljarðar króna. Rekstrartap Valitor höfðu verið 9,9 milljarðar króna á árinu 2019 og 1,3 milljarðar króna á árinu 2018. Því nemur sameiginlegt tap Valitor á þessum þremur árum 13 milljörðum króna.
Þrátt fyrir taprekstur jókst bókfært virði Valitor í fyrra um tvo milljarða króna, úr 6,5 í 8,5 milljarða króna. Það var hins vegar 15,8 milljarðar króna í lok árs 2018 og hefur því lækkað um 7,3 milljarða króna síðan þá.
Þetta kemur fram í ársreikningi Arion banka, eiganda Valitor, sem birtur var í liðinni viku.
Þar segir að á síðasta ári hafi Valitor ráðist í umfangsmikla endurskipulagningu og hagræðingaraðgerðir auk þess sem starfsemi félagsins í Danmörku og hluti starfseminnar í Bretlandi hafi verið seld. „Áfram er Valitor í söluferli en það hefur tekið lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir, m.a. vegna breyttra markaðsaðstæðna tengdum Covid-19. Þrátt fyrir þessa seinkun finnur bankinn áhuga frá ýmsum aðilum á kaupum á Valitor.“ Það söluferli hefur staðið yfir frá árinu 2018.
Langvinnur rekstrarvandi
Valitor hefur glímt við rekstrarvanda í langan tíma. Hann má rekja til mikils vaxtar og fjárfestingar erlendis án þess að sú útþensla hafi skilað þeim árangri sem vonast var til.
Sérstaklega á það við svokallaðar alrásarlausnir, en tekjuvöxtur í þeim hefur verið langt undir væntingum þrátt fyrir miklar fjárfestingu í þeim sem höfðu myndað alls óefnislega eign upp á marga milljarða króna um tíma.
Mest voru áhrifin á árinu 2019. Þann 23. janúar í fyrra sendi Arion banki frá sér afkomuviðvörun þar sem fram kom að virðisrýrnunarpróf hefðu sýnt að færa þyrfti óefnislega eign Valitor niður um fjóra milljarða króna, úr 7,4 milljörðum króna í 3,4 milljarða króna.
Til viðbótar var rekstrartap Valitor mikið á árinu 2019 – rekstrartekjur þess drógust saman um 1,5 milljarða á árinu – og kostnaður við yfirstandandi söluferli fyrirtækisins einnig umtalsverður. Samanlagt leiddi þessi staða til þess að virði Valitor hríðféll.
Önnur ástæða fyrir minnkandi tekjum Valitor á undanförnum árum er sú að einn stærsti viðskiptavinur fyrirtækisins, Stripe, hætti færsluhirðingarviðskiptum sínum við Valitor um mitt ár 2018, líkt og Kjarninn greindi frá í mars 2018 að stæði til.