Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var í kvöld sýknaður í öldungadeildinni af ákæru fulltrúadeildarinnar til embættismissis. 57 öldungadeildarþingmenn greiddu atkvæði með sakfellingu en 43 greiddu atkvæði með sýknu. Þrátt fyrir að meirihluti hafi verið með sakfellingu þarf tvö atkvæði af hverjum þremur til að sakfella í slíkri ákæru.
Í atkvæðagreiðslunni í kvöld greiddu sjö þingmenn Repúblikana með sakfellingu. Þetta er í fjórða sinn í sögunni sem kosið er um embættismissi, og annað skipti Trumps, en aldrei hafa jafn mörg atkvæði verið greidd með sakfellingu og í kvöld.
Ákæran kemur í kjölfar áhlaups stuðningsmanna Trumps sem gert var á þinghús Bandaríkjanna þann 6. janúar síðastliðinn. Í umfjöllun New York Times er sagt að ein helsta ástæða þess að svo margir þingmenn Repúblikana hafi kosið með sakfellingu sé sú að þeir upplifðu áhlaupið á eigin skinni og þurft að leita skjóls frá ofbeldisfullum múgnum.
Eftir að niðurstaða lá fyrir sendi Trump frá sér tilkynningu þar sem hann þakkaði lögmönnum sínum. Þar að auki líkti hann málinu við nornaveiðar, líking sem hann greip töluvert til í embættistíð sinni. Hann sagði einnig að þessi tilraun Demókrata til að binda enda á pólitískan feril sinn hefði mistekist en vegna sýknunnar er Trump frjálst að bjóða sig aftur fram til embættist forseta.