Skipulagsstofnun telur tilefni til að yfirfara þá virkjanakosti sem lagt er til að falli í nýtingar- og biðflokk rammaáætlunar samkvæmt þingsályktunartillögu sem nú hefur verið lögð hefur fram á Alþingi í þriðja sinn á rúmlega fjórum árum. Vill stofnunin að kannað verði hvort að í öllum tilvikum sé um að ræða virkjanakosti sem enn eru fyrirhugaðir eða er af öðrum ástæðum tilefni til að festa í áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.
Í janúar voru átta ár liðin frá því að 2. áfangi verndar- og orkunýtingaráætlunar, svonefndrar rammaáætlunar, var samþykktur á Alþingi. Rúmlega fjögur ár eru síðan tillaga til þingsályktunar á þeim þriðja var lögð fyrst fram og tæplega fjögur síðan umhverfisráðherra skipaði verkefnisstjórn fjórða áfanga.
Umsagnafrestur um þingsályktunartillögu um þriðja áfanga rammaáætlunar rann út í vikunni. Í áætluninni er virkjanakostum raðað í verndar-, nýtingar- eða biðflokk. Verkefnisstjórn 3. áfanga skilaði lokaskýrslu sinni um flokkun 82 virkjunarkosta til umhverfisráðherra í ágúst árið 2016. Ráðherrann, Sigrún Magnúsdóttir, lagði í kjölfarið fram þingsályktunartillögu í fullu samræmi við tillögur verkefnisstjórnarinnar. Tillagan var ekki afgreidd í ráðherratíð Sigrúnar og ekki heldur í tíð Bjartar Ólafsdóttur.
Tillagan hefur nú verið lögð fram í þriðja sinn og enn í óbreyttri mynd – tæplega fjórum og hálfu ári eftir að verkefnissstjórn skilaði lokaskýrslu sinni til ráðherra. Að þessu sinni er það Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra sem leggur hana fram en samkvæmt henni fara átján virkjanakostir í orkunýtingarflokk. Í biðflokki er að finna 23 virkjanakosti og 26 í verndarflokki.
Í umsögn Skipulagsstofnunar um tillöguna nú er vakin athygli á því hversu langur tími er liðinn frá mótun tillögunnar. „Rammaáætlun byggir fyrst og fremst á virkjunarkostum sem tilteknir framkvæmdaaðilar óska eftir að teknir séu fyrir,“ segir í umsögninni sem Ásdís Hlökk Theódórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, skrifar. Bent er á að sveitarfélögum beri að gera ráð fyrir virkjanakostum í skipulagi í samræmi við flokkun þeirra í rammaáætlun. „Í ljósi framangreinds telur Skipulagsstofnun tilefni til að yfirfara lista yfir virkjanakosti sem lagt er til að falli í nýtingar- og biðflokk samkvæmt tillögunni, það er, hvort í öllum tilvikum er um að ræða virkjunarkosti sem eru enn fyrirhugaðir eða er af öðrum ástæðum tilefni til að festa í rammaáætlun,“ segir í umsögninni.
Athygli er vakin á að ákveðnir virkjunarkostir sem tillagan tekur til, hafa þegar hlotið málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, eftir að tillaga verkefnisstjórnar lá fyrir árið 2016 eða að vísað er til eldri gagna í tillögunni.
Um er að ræða eftirfarandi virkjanakosti:
Veituleið Blönduvirkjunar: Skipulagsstofnun gaf út álit um umhverfismat virkjunarinnar í október 2014, en í greinargerð þingsályktunartillögunnar er vísað til rökstuðnings í þingsályktunartillögu sem var samþykkt árið 2013.
Hvalárvirkjun: Skipulagsstofnun gat út álit um mat á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar í apríl 2017.
Búrfellslundur: Skipulagsstofnun gaf út álit um mat á umhverfisáhrifum Búrfellslundar í desember 2016.
Bjarnarflagsvirkjun: Skipulagsstofnun tók ákvörðun í nóvember 2014 um að endurskoða þurfi fyrirliggjandi umhverfismat virkjunarinnar, en í greinargerð þingsályktunartillögunnar er vísað til rökstuðnings í þingsályktunartillögu sem var samþykkt árið 2013. Ákvörðunin var kærð, en staðfest af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að hluta með úrskurði nefndarinnar dags. 5. október 2017.
Hvammsvirkjun: Skipulagsstofnun gaf út nýtt álit um mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar í mars 2018, vegna endurskoðunar fyrra umhverfismats varðandi tiltekna þætti.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sagði í viðtali við Kjarnann fyrir um ári síðan að í þessum þriðja áfanga rammaáætlunar yrði dregin lína í sandinn hvað varðar virkjanir á hálendi Íslands en samhliða þingsályktunartillögu að rammaáætlun er nú fjallað um frumvarp að hálendisþjóðgarði á Alþingi. Samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að ráðast í þær virkjanahugmyndir sem falla munu í nýtingarflokk í þriðja áfanga rammaáætlunar. Að sama skapi verður leyfilegt að þær hugmyndir sem enda í biðflokki þessa áfanga áætlunarinnar geti verkefnisstjórn tekið til skoðunar í næstu áætlunum sínum.
Virkjanakosturinn Skrokkalda er eina vatnsaflsvirkjunin innan marka fyrirhugaðs hálendisþjóðgarðs sem lagt er til að fari í nýtingarflokk samkvæmt þeirri tillögu sem Alþingi þarf nú að fjalla um og afgreiða.