Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur látið Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra fá tillögur að breyttum sóttvarnaaðgerðum á landamærum og býst við því að ráðherra kynni reglugerð á næstu dögum.
Á upplýsingafundi almannavarna í dag sagði Þórólfur að hann hefði meðal annars lagt til að gerð yrði krafa um neikvætt próf áður en fólk kæmi í flug til Íslands, að verkferlar á landamærum yrðu lagaðir svo auðveldara yrði að sannreyna hvort fólk væri að gefa yfirvöldum réttar upplýsingar og einnig að athugað yrði hvort hægt væri að skylda fólk til þess að dvelja í farsóttahúsum eftir komuna til landsins.
Sóttvarnalæknir sagði á fundinum að í kjölfar þess að aðgerðir á landamærum yrðu hertar, til að lágmarka hættuna á því að veiran leki inn í landið, gæti verið mögulegt að slaka meira á hér innanlands.
Þó þyrfti að koma í ljós hvernig áhrifin af síðustu tilslökunum innanlands yrðu fyrst. Of snemmt væri að segja til um hvort tilslakanirnar fyrr í mánuðinum gætu haft bakslag í för með sér.
Góðar fréttir af dreifingu bóluefna
Fram kom í máli Þórólfs að góðar fréttir hefðu borist um bólusetningar í síðustu viku. Ísland væri að fara að fá meira magn bóluefna hraðar en talið hefði verið. Sóttvarnalæknir sagði að um 70 þúsund skammtar myndu koma til landsins í lok mars, en inni í þeirri tölu væri ekki magn bóluefna frá AstraZeneca.
„Ég held að við getum verið vongóð um að við séum að fara að fá meira af bóluefnum,“ sagði Þórólfur og vísaði til nýrra frétta frá Danmörku um að Danir teldu sig verða búna að „bólusetja alla í sumar“. Þar í landi er sagt frá því að nú megi búast við því að hægt verði að bólusetja alla sem þess óska fyrir lok júnímánaðar.
Þórólfur segir að það sé enn erfitt að segja til um hversu hratt bóluefni komi hingað til lands, en það muni ráðast af dreifingaráætlunum sem muni koma frá fyrirtækjunum.
16 prósent minna af sýklalyfjum ávísað í fyrra
Alma Möller landlæknir sagði á fundinum að landsmenn þyrftu áfram að halda vöku sinni, viðhalda persónubundnum sóttvörnum og leita í sýnatöku ef minnti grunur vaknar um einkenni COVID-19. Hún minnti á upphaf þriðju bylgjunnar, þegar veiran var „undir radarnum“ í nokkrar vikur áður en hún braust fram af krafti.
Hún minnti á að persónubundnar sóttvarnir væru ekki bara góðar í baráttunni við veiruna, heldur líka gegn öðrum umgangspestum, veirusýkingum og bakteríusýkingum. Fram kom í máli Ölmu að sýklalyfjaávísunum hefði fækkað til muna á síðasta ári, eða um 16 prósent frá fyrra ári heilt yfir og hlutfallslega meira hjá börnum.
Þetta sagði Alma vera mjög mikilvægt, þar sem sýkingar valdi þjáningum, auki álag á heilbrigðiskerfið og auki á þann vanda sem mannkynið glímir við og mun glíma við til framtíðar, sýklalyfjaónæmi.
Landlæknir vonar því að persónubundnar sóttvarnir séu komnar til að vera.