Ekki var mögulegt að taka á móti kvótaflóttafólki á síðasta ári vegna COVID-19 faraldursins en unnið er „hörðum höndum að því að taka á móti hópnum á fyrri hluta þessa árs“.
Þetta kemur fram í svari félagsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans.
„Félagsmálaráðuneytið hefur endurnýjað samning sinn við International Organization for Migration, sem mun veita stjórnvöldum aðstoð við að taka á móti hópnum en samningurinn snýr bæði að flutningi, aðstoð við samfélagsfræðslu og möguleikanum á að taka viðtöl í gegnum fjarfundabúnað. Um er að ræða fjölskyldur og einstaklinga sem eru staddir í Kenía, Íran og Líbanon,“ segir í svarinu.
Fram kemur hjá ráðuneytinu að unnið sé að því að taka á móti 15 einstaklingum, barnafjölskyldum sem séu upprunalega frá Sýrlandi og staddar á Grikklandi – og séu umsækjendur þar um alþjóðlega vernd. Líkt og með hóp kvótaflóttafólks sé unnið að því að taka á móti hópunum sem fyrst.
Samtals er því um að ræða 100 einstaklinga sem fyrirhugað er að taka á móti, að því er fram kemur hjá ráðuneytinu.
Samþykktu í september að taka á móti allt að 15 manns í viðbót
Ríkisstjórn Íslands samþykkti þann 25. september síðastliðinn að Ísland tæki á móti flóttafólki frá Lesbos á Grikklandi, með áherslu á sýrlenskar fjölskyldur í viðkvæmri stöðu. Fram kom í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins að fjölskyldurnar hefðu áður búið í flóttamannabúðunum Moria sem eyðilögðust í eldsvoða fyrr í mánuðinum.
Í tilkynningu stjórnvalda frá því í september sagði að flóttafólkið frá Lesbos, sem yrði allt að 15 manns, myndi bætast í hóp þeirra 85 sem ríkisstjórnin hygðist taka á móti á þessu ári og væri það langfjölmennasta móttaka flóttafólks á einu ári hingað til lands.
„Flóttamannanefnd mun annast undirbúning á móttöku fjölskyldnanna og verður móttaka þeirra unnin í samvinnu við Evrópusambandið og grísk stjórnvöld. Evrópusambandið hafði áður sent frá sér ákall um nauðsyn á flutningi barna og barnafjölskyldna vegna bruna Moria flóttamannabúðanna. Þá mun Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna vera íslenskum stjórnvöldum innan handar varðandi það hvernig best verður staðið að því að koma fjölskyldunum til landsins,“ sagði í tilkynningunni.
Á árinu 2019 var tekið á móti 74 flóttamönnum á Íslandi, en fram kom fréttum í lok ársins að íslensk stjórnvöld myndu bjóðast til að taka á móti 85 manns. Einkum væri um að ræða Sýrlendinga og hópa viðkvæmra flóttamanna vegna kynferðis eða fjölskylduaðstæðna frá Kenía.