Ástralskar fréttir munu á ný flæða um síður Facebook á næstu dögum, en ástralska ríkisstjórnin hefur komist að samkomulagi við tæknirisann sem felur í sér að Facebook muni semja við þarlenda fjölmiðla um greiðslu fyrir birtingu frétta.
Stífar samningaviðræður fyrirtækisins við áströlsk stjórnvöld stóðu yfir um helgina, meðal annars með aðkomu Mark Zuckerberg, forstjóra Facebook. Virðast báðir aðilar stíga nokkuð sáttir upp frá samningaborðinu, ef marka má yfirlýsingar.
Facebook greip til þess að ráðs að fjarlægja allar fréttir ástralskra miðla af samfélagsmiðlinum í síðustu viku og kom sömuleiðis í veg fyrir að þeir 17 milljón Ástralir sem eru á Facebook gætu deilt fréttum erlendra miðla. Þetta vakti heimsathygli.
Málamiðlun hefur nú verið kynnt til sögunnar, sem felur í sér að Facebook semji við áströlsk fjölmiðlafyrirtæki hvert í sínu lagi um greiðslu fyrir fréttir. Á móti mun nýja ástralska löggjöfin í reynd ekki gilda um fyrirtækið að óbreyttu, en áströlsk stjórnvöld munu horfa til þess hvort Facebook sé að veita fé til þarlendra fjölmiðla er þau ákveða hvort ákvæði fyrirhugaðra laga gildi um fyrirtækið.
Ástralska stjórnin hefur lagt fram breytingartillögur sem virðast að nokkru leyti draga bitið úr lagafrumvarpinu sem búist er við að efri deild ástralska þingsins samþykki í vikunni.
Í tilkynningu frá stjórnvöldum kemur fram gerðardómi verði einungis beitt til að ákvarða greiðslur netfyrirtækja til fjölmiðla verði ef allar aðrar leiðir skili ekki árangri. Facebook eða önnur netfyrirtæki eftir atvikum fái rúman frest til þess að komast að samkomulagi við miðla áður en stjórnvöld fari að beita þeim þvingunarúrræðum sem felast í löggjöfinni.
Gæti mögulega orðið smærri fjölmiðlum til tekna, segja stjórnvöld
Ekki verður gerð krafa um að algjörlega sambærilegir samningar verði gerðir við öll fjölmiðlafyrirtæki og ástralska stjórnin telur að það muni komi minni fjölmiðlafyrirtækjum og staðbundnum fjölmiðlum betur en öðrum. Stærri útgáfufyrirtæki geta þannig ekki fett fingur út í að minni fjölmiðlar fái hlutfallslega meira greitt fyrir hvert birt efni sem fer í deilingu á Facebook, að því er segir í frétt breska blaðsins Guardian.
Will Easton, æðsti yfirmaður Facebook í Ástralíu, segist ánægður með að samkomulag hafi náðst við áströlsk stjórnvöld. Á honum er að heyra að áströlsk stjórnvöld séu að bregðast við helstu áhyggjum Facebook af fyrirhugaðri lagasetningu, en eins og Kjarninn fjallaði um í síðustu viku sagði Facebook að áströlsk stjórnvöld væru að misskilja, í öllum grundvallaratriðum, samspil Facebook og hefðbundinna fjölmiðla.
Í frétt ABC í Ástralíu kemur þó fram að Facebook áskilji sér rétt til þess að grípa aftur til þess ráðs að fjarlægja fréttir ástralskra miðla af samfélagsmiðlinum ef skref verði tekin af hálfu stjórnvalda sem Facebook geti ekki fellt sig við.
Fjármálaráðherra Ástralíu, Josh Frydenberg, segir að áströlsk stjórnvöld hafi verið að taka slaginn fyrir önnur ríki heims með aðgerðum sínum að undanförnu, en mörg ríki eru að velta því fyrir sér hvernig best sé að koma böndum utan um starfsemi alþjóðlegra netrisa á borð við Google og Facebook.