„Reykjanesið er búið að vera lifandi síðasta ár og á þessu ári. Við vitum að þetta er virkt eldgosasvæði og það hlýtur að koma að því að það kemur eitthvað upp,“ segir Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, í samtali við Kjarnann, um stóru jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaganum í morgun sem fundist hefur vel á öllu suðvesturhorni landsins og jafnvel víðar. Stærsti skjálftinn var 5,7 stig og varð hann suðvestur af fjallinu Keili.
Ármann segir að Veðurstofan og aðrar rannsóknarstofnanir fari nú yfir gögn til að kanna hvort að um gliðnun sé að ræða eða áframhaldandi núning platna í jarðskorpunni. Hvort að þær séu eingöngu að strjúkast saman eða hvort að þær séu að fara í sundur. „Væntanlega gengur þetta yfir miðað við það sem við sáum í fyrra,“ segir Ármann og vísar til þeirrar miklu virkni sem var á svæðinu með landrisi við fjallið Þorbjörn. „Þegar við erum komin með spennuástand þar sem skorpan fer að gliðna þá fer eitthvað að gerast.“
Stórir jarðskjálftar tengjast núningi í jarðskorpunni „og í raun þarf það spennusvið að klára sig áður en við fáum eitthvað upp,“ bendir Ármann á. „Þetta þarf ekki að leiða til neins nema stórra skjálfta.“
Hann segir að gosórói, undanfari eldgoss, þurfi ekki að fylgja strax í kjölfar jarðskjálftahrinu. „Við myndum ekki sjá hann fyrr en svona korteri fyrir gos á þessu svæði.“
Til að meta hvað er að gerast og til að reikna út hreyfinguna í jarðskorpunni er m.a. stuðst við gervitunglamyndir og GPS-mæla. Þannig er hægt að sjá hvort að jörðin sé að lyfta sér, landris að verða, eða að gliðna.
„Þetta eru mikil læti og búast má við rifum á yfirborði,“ sagði Ármann við Kjarnann í morgun en hann var þá staddur heima hjá sér í Garðabænum. „Ég er hálf sjóveikur að ganga hér um gólf,“ sagði hann.
Landrisið við Þorbjörn hélt áfram á nokkurra mánaða tímabili í fyrra en stöðvaðist svo. Ármann segir að talið sé að lítil kvika hafi komist inn nærri yfirborði sem olli landrisinu. „En lætin hafa haldið áfram,“ segir hann. „Skorpan er að gera sig klára. Því þú verður að opna skorpu til að hleypa kviku upp.“
Frá landnámi hefur þrisvar sinnum gosið á Reykjanesi, síðast á árunum 1211-1240 og eru þeir atburðir kallaðir Reykjaneseldar. Á því tímabili gaus nokkrum sinnum, þar af urðu þrjú gos í eldstöðvakerfi sem kennt er við Svartsengi. Eldgosin voru hraungos á 1-10 kílómetra löngum gossprungum. Gosvirkni á Reykjanesi-Svartsengi einkennist af goslotum eða eldum sem geta varað í áratugi og má búast við goslotu á um 1100 ára fresti.