Hreinn Loftsson, annar aðstoðarmanna Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra, segir það vekja „furðu hvernig ákveðnir fjölmiðlar og sumir stjórnmálamenn hafa hamast á dómsmálaráðherra“ vegna símtala hennar til Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, á aðfangadag 2020 vegna Ásmundarsalsmálsins svokallaða. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem Hreinn birti á Facebook seint í gærkvöldi.
Þar segir Hreinn að ekkert hafi komið fram varðandi símtölin annað en að ráðherrann hafi verið að afla skýringa og upplýsinga um „mjög óvenjulega“ dagbókarfærslu lögreglu á meintu sóttvarnabroti í Ásmundarsal kvöldið áður, á Þorláksmessu. Í umræddri dagbókarfærslu, sem send var á fjölmiðla að morgni aðfangadags í fyrra, sagði að einn „háttvirtur ráðherra“ hefði verið viðstaddur veislu í salnum þar sem grunur var um sóttvarnarbrot. Síðar var staðfest að sá ráðherra var Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og efnahags- og viðskiptaráðherra.
Vissi að Bjarni hefði verið í Ásmundarsal
Nýverið opinberaði RÚV að Áslaug Arna hefði hringt tvívegis í Höllu Bergþóru á aðfangadag 2020 í kjölfar þess að lögreglan hafði greint fjölmiðlum frá því að „háttvirkur ráðherra“ hefði verið staddur í samkvæmi í Ásmundarsal kvöldið áður, þar sem grunur er um að sóttvarnarbrot hafi verið framið. Umræddur ráðherra reyndist vera Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra. Áslaug Arna sagði í liðinni viku við RÚV að samtöl hennar við lögreglustjórann hafi verið vegna spurninga sem hún hafði um verklag og upplýsingagjöf við gerð dagbókarfærslna lögreglu. „Fjölmiðlar spurðu mig hvort hún væri eðlileg. Ég þekkti ekki verklag dagbókarfærslna lögreglunnar og spurði aðeins um það.“
Heimildir Kjarnans herma að Áslaug Arna hafi verið spurð um það þegar hún mætti á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í gærmorgun hvort hún hafi fengið upplýsingar um verklagsreglur hjá lögreglustjóranum, og að hún hafi svarað því játandi. Þeim upplýsingum hafi hins vegar ekki verið miðlað til neinna fjölmiðla.
Þar sagðist Áslaug Arna ekki hafa verið í sambandi við Bjarna áður en hún hringdi í Höllu Bergþóru en í samtali við RÚV eftir fundinn staðfesti Áslaug Arna að hún hafi vitað að Bjarni væri hinn „háttvirti ráðherra“ sem minnst hafði verið á þegar hún hringdi.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ákvað í gær að kalla lögreglustjórann á fund sinn í dag og fá hennar hlið á málinu.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar sem situr í nefndinni, tók málið upp undir liðnum störf þingsins í síðustu viku og sagði þar að hegðun Áslaugar Örnu og gerðir væru „mikill dómgreindarbrestur“ að hennar mati. Erindið hafi getað sett lögreglustjórann í „óþægilega stöðu.“