Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og umhverfisráðherra, ætlar að sækjast eftir fyrsta sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi. Guðmundur hefur gegnt ráðherraembætti utan þings síðan árið 2017. Árið 2019 var hann kjörinn varaformaður VG.
Það stefnir því allt í oddvitaslag í kjördæminu því nú þegar hefur Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður flokksins, tilkynnt að hann sækist eftir því að leiða lista flokksins í kjördæminu í komandi kosningum. Ólafur var annar á lista flokksins í kjördæminu í síðustu kosningum, þá var oddviti Rósa Björk Brynjólfsdóttir sem nú hefur skipt um flokk. Ólafur starfaði áður sem öldrunarlæknir og sat í bæjarstjórn Kópavogs frá 2006-2017.
Guðmundur er stofnfélagi í VG og hefur því verið í hreyfingunni frá 1999. Í tilkynningu frá honum segist hann hafa fylgt VG að málum frá upphafi, „ekki síst vegna áherslu á umhverfis- og náttúruvernd, mannréttindi og réttlátara samfélag.“ Þá séu stór verkefni fram undan í íslensku samfélagi sem hann langar að taka þátt í á vettvangi stjórnmálanna, þar á meðal atvinnuleysi sem vinna þarf bug á og uppbygging í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Hann segir loftslagsvána vera stóru áskorun okkar tíma og að sem ráðherra hafi hann lagt áherslu á að koma loftslagsmálum aftur á kortið.
Í tilkynningunni segist Guðmundur vilja sjá Ísland þróast sem réttlátara samféag þar sem efnameira fólk leggur meira til samfélagsins. „Við þurfum að byggja á þeim skrefum sem stigin hafa verið á þessu kjörtímabili, eins og með þrepaskiptu skattkerfi, lengingu fæðingarorlofs og nýjum úrræðum í húsnæðismálum. Jafnréttis- og mannréttindamál eru mér einnig að sjálfsögðu ofarlega í huga, ekki síst kvenfrelsi og réttindi hinsegin fólks.“