Klukkan um 14:20 í dag mældist óróapúls á jarðskjálftamælum á suðvesturhorninu. Púlsinn er staðsettur suður af Keili, við Litla Hrút. Óróapúlsar mælast í aðdraganda eldgosa, en enn hefur ekki verið staðfest að eldgos sé hafið á Reykjanesi.
Fram kom í máli Kristínar Jónsdóttur hópstjóra náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands í útvarpsfréttum RÚV kl. 15 að hugsanlegt væri að eldgos væri að hefjast. Viðbúnaðarstig vegna flugumferðar á suðvesturhorninu hefur verið hækkað upp í appelsínugult. Búið er að boða til blaðamannafundar á vegum Almannavarna og Veðurstofunnar kl. 16.
Vika er síðan að öflug skjálftahrina hófst á Reykjanesskaga með skjálfta af stærðinni 5,7, sem enn er stærsti skjálfti hrinunnar. Ekki er talið líklegt að gos á þeim stað sem óróinn mælist myndi ógna byggð eða vegasamgöngum.
Þrjú gostímabil á Reykjanesi frá landnámi
Frá landnámi hefur þrisvar sinnum gosið á Reykjanesi, síðast á árunum 1211-1240. Þeir atburðir eru kallaðir Reykjaneseldar. Á því tímabili gaus nokkrum sinnum, þar af urðu þrjú gos í eldstöðvakerfi sem kennt er við Svartsengi. Eldgosin voru hraungos á 1-10 kílómetra löngum gossprungum.
Í Reykjaneseldum urðu samanlagt minnst sex gos með hléum og vörðu frá tveimur til tólf ára. Gosvirknin hófst í eldstöðvakerfinu Reykjanesi og færðist svo í átt til Svartsengis á seinni stigum eldanna. Á Reykjanesi myndaðist eitt hraun en þrjú við Svartsengi.
Athugasemd ritstjórnar: Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt. Áður var talað um „gosóróa“ en sérfræðingar Veðurstofunnar hafa bent á að óróinn geti vart talist gosórói fyrr en ljóst er að eldgos sé hafið.