Um helgina var 21 einstaklingur greindur með COVID-19 innanlands, þar af fimm til sex utan sóttkvíar. Frá þessu er greintí frétt RÚV. Af þessum 21 greindust tíu skipverjar súrálsskips sem kom til Reyðarfjarðar í gær. Hinir smituðu eru allir í einangrun um borð og aðrir í sóttkví. Hefur svo verið frá komu skipsins til hafnar að því er segir í tilkynningu frá lögreglu.
Samkvæmt frétt RÚV er kennari í Laugarnesskóla meðal þeirra sem greindust með veiruna. Nú eru alls 80 nemendur og fjórir kennarar skólans í sóttkví. Gert er ráð fyrir því að sóttkvíin standi í dag og á morgun og að allir sem um ræðir verði boðaðir í sýnatöku á morgun, þriðjudag.
Þetta kemur fram í orðsendingu til allra foreldra og forráðamanna barna við skólann í morgun. Þar segir enn fremur að vonir standi til að skólahald verði aftur komið í eðlilegt horf á miðvikudaginn.
Þá segir í frétt RÚV að leikmenn tveggja knattspyrnuliða karla, Stjörnunnar og Fylkis, séu í sóttkví eftir smit sem komu upp um helgina. Í fréttinni er haft eftir Má Kristjánssyni, yfirmanni smitsjúkdómadeildar Landspítala að of snemmt sé að segja til um hvort fjórða bylgja faraldursins sé hafinn, það muni ráðast af framvindu dagsins og morgundagsins.
Almannavarnir hafa boðað til upplýsingafundar klukkan 11 í dag þar sem farið verður yfir stöðu faraldursins.