Heildararðgreiðslur úr íslenskum fyrirtækjum til einstaklinga í eigendahópi þeirra voru rúmlega 48 milljarðar króna á árinu 2019. Af þeirri upphæð fóru 16,2 milljarðar króna, eða þriðjungur af arðstekjum einstaklinga, til eitt prósent þeirra sem fengu hæstar arðgreiðslur. Sá hópur telur 233 einstaklinga.
Þetta kemur fram í umfjöllun um arðgreiðslur á árinu 2019 í nýjustu útgáfu Tíundar, fréttablaðs Skattsins.
Þar segir að á árinu 2019 hafi alls 23.388 einstaklingar fengið greiddan arð af hlutabréfum. Alls námu þær arðgreiðslur rúmum 48 milljörðum króna. Helmingur þeirra, alls 11.694 einstaklingar, sem fengu greiddan arð fengu minna en 30 þúsund krónur í sinn hlut hver.
Efsta tíu prósent þeirra sem fengu arðgreiðslur fékk á hinn bóginn samanlagt 38 milljarða króna, sem þýðir að um 79,1 prósent af öllum arði sem greiddur var út árið 2019 fór til þessa 2.338 manna hóps. Langstærsti hluti þeirrar upphæðar fór til efsta fimm prósent hópsins, sem taldi 1.169 einstaklinga, eða 30,6 milljarðar króna. Því fékk sá rúmlega þúsund manna hópur næstum tvær af hverjum þremur krónum sem greiddar voru út í arð vegna eignar í fyrirtækjum hérlendis á árinu 2019.
Eiga einnig hlutabréf erlendis
Arðgreiðslur hafa aukist umtalsvert á undanförnum árum. Fyrirtæki landsins greiddu til að mynda út tveimur milljörðum króna, eða um 4,5 prósent, meiri arð til einstaklinga sem voru skattskyldir hér árið 2019 en árið áður.
Þegar kreppan sem geisaði eftir bankahrunið stóð sem hæst, á árinu 2010, greiddu félög landsins 15,7 milljarða króna í arð. Hæst risu þær árið 2017 þegar arðgreiðslur voru alls 61,3 milljarðar króna. Arðgreiðslur drógust svo saman árin 2018 og 2019.
Þeim sem fá arð fækkar hins vegar. Árið 2019 fengu 1.154 færri fjölskyldur greiddan arð frá íslenskum fyrirtækjum en árið áður, 13.587 samanborið við 14.741 árið 2018. Í Tíund segir að þetta sé mesta fækkun síðan í hruninu árið 2009 en þá fækkaði þeim sem fengu greiddan arð um 32.825 frá árinu á undan.
Íslendingar sem greiða skatta hérlendis eiga ekki einungis hluti í íslenskum fyrirtækjum. Alls áttu 4.497 fjölskyldur hlutabréf erlendis. Þau voru metin á 15 milljarða króna, en vert er að taka fram að hlutabréf eru metin á nafnvirði, sem segir ekkert til um hvert markaðsvirði þeirra er.
Arður af erlendum hlutabréfum var 1,2 milljarðar árið 2019 en 444 fjölskyldur fengu greiddan arð af slíkum eignum. Arður af erlendum hlutabréfum jókst um 167 milljónir á milli ára eða um 16 prósent.
Búast má við auknum söluhagnaði
Til viðbótar við arðgreiðslur geta eigendur hlutabréfa í fyrirtækjum leyst út hagnað með því að selja eignarhluti sína. Á árinu 2019 nam söluhagnaður af hlutabréfum íslenskra skattgreiðenda 26,5 milljörðum króna auk þess sem annar söluhagnaður var 4,5 milljarðar króna.
Söluhagnaðurinn hefur dregist saman á undanförnum tveimur árum, en hann náði hámarki eftir bankahrun árið 2017 þegar hagnaðurinn var alls 43,5 milljarðar króna.
Í ljósi þess að virði Úrvalsvísitalan, sem mælir þróun á gengi bréfa þeirra tíu félaga í íslensku kauphöllinni sem eru með mesta seljanleika, hefur hækkað um 80 prósent á rúmu ár, og að viðskiptum með hlutabréf hefur fjölgað verulega, má ætla að söluhagnaður hlutabréfa frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á verði myndarlegur á árinu 2020.