Síðasta skoðanagrein mexíkóska blaðamannsins Miguel Angel Lopez Velasco fjallaði um morð á konum, frændhygli og mengað drykkjarvatn. Greinin birtist í dagblaðinu Notiver og í henni skrifaði Velasco að yfirvöld hefðu heitið því að taka á öllum þessum málum og greinin væri áminning um að standa við þau loforð. Aðeins nokkrum klukkustundum síðar var hann látinn.
Á júnínóttu árið 2011 brutust menn inn á heimili hins 55 ára gamla blaðamanns er hann var í fasta svefni og skutu hann til bana. Þeir létu ekki þar við sitja heldur myrtu einnig eiginkonu hans og yngsta son þeirra hjóna. Þeir hleyptu samtals 400 skotum af í árásinni. Nú, áratug síðar, hafa morðingjarnir enn ekki fundist. Balbina Flores, sem fer fyrir samtökunum Fréttamenn án landamæra í Mexíkó, segir að í yfir 90 prósent tilvika komist morðingjar blaðamanna upp með glæpi sína í landinu.
Morðið á Velasco er nú hins vegar komið til meðferðar rannsóknarnefndar á vegum alþjóða glæpadómstólsins í Haag og í dag hófust opin réttarhöld hans um brot á fjölmiðlafrelsi víðs vegar um heiminn. Morð á þremur blaðamönnum verða tekin sérstaklega fyrir. Morðið á Velasco er eitt þeirra. Morðið á blaðakonunni og ritstjóranum Lasantha Wickrematunge frá Sri Lanka er annað og það þriðja er morðið á sýrlenska blaðamanninum Nabil al-Sharbaji.
Nokkur alþjóðleg samtök blaðamanna komu að stofnun rannsóknarnefndarinnar enda morð á blaðamönnum tíð, hafa verið yfir 1.400 talsins frá árinu 1992. Átta af hverjum tíu eru óupplýst.
Flest voru þau framin í Mið- og Suður-Ameríku og á þeim slóðum er einnig líklegast að morðingjar komist upp með verknað sinn. Ástandið er verst í Mexíkó og er landið eitt það hættulegasta í heimi fyrir blaðamenn að starfa í.
Morðið á Velasco var öðrum til viðvörunar og aðeins byrjunin, segir Flores. Í kjölfar þess voru fleiri blaðamenn drepnir í Veracruz-ríki Mexíkó þar sem Velasco starfaði. Blaðakonan Yolanda Ordaz de la Cruz, sem vann með Velasco á dagblaðinu Notiver, var einnig drepin og það aðeins mánuði síðar. Árið 2012 var önnur blaðakona, Regina Martinez Perez, sem starfaði á vikublaðinu Proceso, myrt.
Allt gerðist þetta í valdatíð ríkisstjórans Javier Duarte de Ochoa. Á meðan hann gegndi embætti á árunum 2010-2016 voru sautján blaðamenn myrtir í Veracruz og þrír hurfu sporlaust. Hann var þekktur fyrir að láta njósna um blaðamenn og hélt „svartan lista“ yfir þá sem gagnrýndu hann og honum mislíkaði.
Lítið breyttist með nýjum forseta
Ríkissaksóknarinn í Veracruz hélt því fram að morðið á Velasco væri tengt valdamiklum eiturlyfjabarón á svæðinu. Rannsókn málsins var síðar látin niður falla án þess að nokkur botn fengist í málið. Duarte var hins vegar ákærður fyrir spillingu árið 2018 og dæmdur til níu ára fangelsisvistar.
Er Andres Manuel Lopez Obrador varð forseti Mexíkó árið 2018 hét hann því að auka öryggi blaðamanna í landinu og taka fastar á málum en lítið hefur breyst. Frá því hann tók við embætti hafa 43 blaðamenn verið myrtir og 69 aktivistar, m.a. fólk sem er að berjast fyrir mannréttindum, náttúruvernd og öðrum umhverfismálum.
Morð á blaðamönnum eru tíð í löndum þar sem pólitísk ólga ríkir eða vopnuð átök geisa. Blaðamenn eru hins vegar ekki heldur öryggir í öðrum ríkjum. Morðið á blaðakonunni Daphne Caruana Galizia á Möltu árið 2017 er dæmi um slíkt. „Enginn á von á því að nokkuð slíkt geti gerst í Evrópusambandsríki,“ segir systir hennar, Corinne Vella. „Við getum aðeins dregið þá ályktun að ef þetta er slæmt í ríkjum sem almennt verja réttindi fólks, gildi þess og tjáningarfrelsi, þá hljóti þetta að vera enn verra á stöðum þar sem ekkert slíkt er í hávegum haft.“
Blaðakonan hafði verið að rannsaka Panamaskjölin og spillingu í heimalandinu um það leyti sem hún var myrt. Lögreglan hefur handtekið þrjá í tengslum við morðið og einn þeirra var fyrr á þessu ári sakfelldur fyrir þátt sinn í því. Í ágúst tilkynntu yfirvöld svo að viðskiptamaður sem Galizia hafði verið að rannsaka áður en hún lést verði einnig dreginn fyrir dóm.
Vald að greina opinberlega frá
Rannsóknarnefndin sem fjalla mun um fjölmiðlafrelsi og morð á blaðamönnum hefur ekki valdheimildir til að sakfella fólk en getur, í ljósi niðurstaðna sinna, þrýst á ríkisstjórnir að vernda blaðamenn. Starf hennar mun einnig setja kastljósið á þau ríki þar sem fjölmiðlafrelsi er fótum troðið og rannsóknir morða á blaðamönnum í molum. „Það felst vald í því að nafngreina opinberlega, upphátt, land þar sem yfirvöld hafa ekki tekið ábyrgð og vanrækt ákveðnar rannsóknir,“segir mannréttindalögfræðingurinn Almudena Bernabeu sem mun leiða rannsóknarnefndina og réttarhöldin. „Enginn vill heyra slíkt um sín eigin kerfi og sínar eigin stofnanir. Ég held að það hafi gildi að tala um þetta opinberlega.“