Bókaútgefendur fengu 374 milljónir króna endurgreiddar frá ríkissjóði vegna kostnaðar við bókaútgáfu á síðasta ári. Endurgreiðslurnar voru enn meiri árið á undan þegar þær námu alls 398 milljónum. Slíkar endurgreiðslur voru festar í lög árið 2019 en endurgreiðslur það ár námu alls 78 milljónum. Það skýrist af því að bókaútgefendur hafa níu mánuði frá útgáfu bókar til þess að sækja um endurgreiðslu. Endurgreiðslur vegna fyrsta jólabókaflóðsins eftir að stuðningurinn var samþykktur er þar af leiðandi að langmestu leyti inni í tölum ársins 2020 um endurgreiðslur.
Lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku voru samþykkt á Alþingi í desember árið 2018. Markmið laganna „er að efla útgáfu bóka á íslensku með því að veita bókaútgefendum tímabundinn stuðning í formi endurgreiðslu á hluta kostnaðar sem fellur til við útgáfu bóka á íslensku.“ Þau tóku gildi strax í upphafi árs 2019 en þau koma til endurskoðunar fyrir lok árs 2023. Þá skal ráðherra láta gera úttekt á árangri þessa stuðnings við íslenska bókaútgáfu fyrir lok þessa árs.
Prentun dýrasti kostnaðarliðurinn
Á heimasíðu Rannís má sjá niðurbrot á endurgreiðslum eftir kostnaðarliðum. Á síðasta ári vó prentun þyngst í endurgreiðslunni af einstökum kostnaðarliðum, eða 28,1 prósent. Kostnaður vegna prentunar á þeim bókum sem fengu stuðning á síðasta ári nam rúmum 420 milljónum og því voru rúmlega 105 milljónir endurgreiddar vegna prentkostnaðar. Þar á eftir koma höfundarlaun, sem voru 20,2 prósent af kostnaði og auglýsingar en 12,9 prósent af útgáfukostnaði féll til vegna þeirra.
Það forlag sem fékk hæstu endurgreiðsluna í fyrra var Forlagið, rúma 91 milljón af þeim tæpu 374 milljónum sem endurgreiddar voru. Frá árinu 2019 hefur forlagið fengið 240 milljónir endurgreiddar vegna kostnaðar við bókaútgáfu félagsins. Næst á eftir Forlaginu kemur forlagið Bjartur og Veröld, endurgreiðslan til þess forlags nam rúmum 37 milljónum í fyrra.
Þegar endurgreiðslur vegna einstakra titla eru skoðaðar sést hversu umfangsmikið Forlagið er í íslenskri bókaútgáfu. Þeir þrír tillar sem hæstar endurgreiðslur hafa fengið voru gefnir út af Forlaginu en það á alls fjóra titla á lista þeirra tíu titla sem hæstar endurgreiðslu hafa fengið.
Hæsta endurgreiðslan nemur ellefu milljónum
Sá titill sem fengið hefur hæsta endurgreiðslu er bókin Síldarárin 1867-1969 eftir Pál Baldvin Baldvinsson. Forlagið fékk rétt um ellefu milljónir endurgreiddar vegna kostnaðar sem féll til við útgáfu þeirrar bókar, það þýðir að endurgreiðsluhæfur kostnaður við útgáfu bókarinnar nam rúmum 43,8 milljónum.
Næstu tvær bækur á listanum yfir þær sem hafa fengið hæstu endurgreiðslurnar eru bækur eftir Arnald Indriðason. Bók Arnaldar, Tregasteinn, kom út árið 2019 og árið 2020 fékk Forlagið tæpar 7,7 milljónir endurgreiddar vegna kostnaðar við útgáfuna. Ári síðar kom bókin Þagnarmúr út. Endurgreiðslur vegna hennar nema rúmum 7,4 milljónum króna.
Á meðal þeirra bóka sem fengið hafa hæsta endurgreiðslu eru einnig bækur sem gefnar eru út af öðrum en stóru forlögunum. Þar má til dæmis finna Árbækur Ferðafélags Íslands, þar má finna eina prjónabók sem gefin er út af Sögum útgáfu. Ofarlega á lista er bókin Skipulag eftir Sólrúnu Diego en hana gefur forlagið Fullt tungl út, forlag Björns Braga Arnarssonar. Allir þessir titlar skiluðu forlögum sínum yfir þremur milljónum í endurgreiðslur.
Gert ráð fyrir að verð bóka myndi lækka
Endurgreiðslur síðustu tveggja ára nema, líkt og áður segir, 374 milljónum og 398 milljónum. Það er nokkuð í takt við það sem gert var ráð fyrir í frumvarpi til laga um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Í greinargerð frumvarpsins kom það meðal annars fram í kaflanum um mat á áhrifum að kostnaður ríkissjóðs vegna stuðningsins væri áætlaður um 300 til 400 milljónir á ári.
Í sama kafla var einnig sagt að meginmarkmið frumvarpsins væri að efla og styðja bókaútgáfu á íslensku til að vernda íslensku sem ætti undir högg að sækja og að efla læsi. Þar kom einnig fram að stuðningurinn ætti að gera bókaútgefendum kleift að lækka verð á bókum um að lágmarki 10 prósent, eða gagnast þeim á annan hátt, til að mynda til frekari fjárfestingar vegna útgáfu á raf- og hljóðbókum.
„Gera má ráð fyrir því að ábati neytenda muni felast í verðlækkun bóka og fjölbreyttara úrvali bóka, m.a. á rafrænum miðlum. Hvort tveggja er til þess fallið að hvetja til lestrar á íslensku og styðja þannig við íslenska tungu og menningu sem stuðlar að aukinni hagsæld fyrir allan almenning,“ segir í frumvarpinu.
Athugasemd ritstjórnar: Fréttin hefur verið uppfærð og fyrirsögn hennar breytt eftir að ábendingar frá starfsfólki Rannís bárust Kjarnanum þess efnis að endurgreiddur kostnaður einstakra titla var ofmetinn. Á gagnatorgi þar sem sjá má yfirlit yfir úthlutanir fyrir hvern titil er tala fyrir kostnað við útgáfu hvers titil birt í stað úthlutunar. Gagnatorgið hefur nú verið uppfært.