Af þeim ellefu sem greindust innanlands með COVID-19 í gær voru sex í sóttkví. Fimm greindust með veiruna á landamærunum i gær.
Eftir gærdaginn eru 385 manns í sóttkví og 124 í einangrun.
Fyrir viku hóf smitum innanlands skyndilega að fjölga og meirihluti þeirra sem greinst hefur var þegar orðinn fullbólusettur við greiningu. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi fyrir helgi að bóluefni væru „klárlega“ að veita minni vernd en hann hafði vonast eftir.
Bólusetningar eru nær hvergi í heiminum jafn útbreiddar og á Íslandi og ríflega 70 prósent fullorðinna eldri en sextán ára eru fullbólusettir.
Þórólfur sagði einnig fyrir helgi að hann ynni að minnisblaði til ráðherra vegna fjölgunar smita. Hann sagði m.a. koma til greina að allir framvísi neikvæðu PCR-prófi við komuna til landsins, líka bólusettir.
Bólusettir hafa ekki þurft að fara í skimun á landamærum við komuna til landsins frá síðustu mánaðamótum. Þórólfur hefur sagt ómögulegt að skima alla sem koma, slíkur sé fjöldinn.
Fréttin hefur verið uppfærð þar sem almannavarnir sendu síðdegis í gær leiðréttingu á tölum um smitin sem birtar voru um morguninn.