Formóðir baktería sem vitað er að ollu pestinni svarta dauða á 14. öld fannst nýverið við DNA-greiningu í tönn úr manneskjum sem höfðu látist árið 1338 og verið jarðaðar í grafreit á svæði sem nú tilheyrir landinu Kirgistan. Vísindamennirnir sem framkvæmdu rannsóknina telja að nú hafi uppruni faraldurs sem átti eftir að fella milljónir manna verið staðfestur. Þar með sé 684 ára gömul ráðgáta loks leyst.
Svarti dauði var óhugnanlegur sjúkdómur sem barst með ógnarhraða á þess tíma mælikvarða um alla Evrópu, Asíu, norðurhluta Afríku og víðar á fjórtándu öld. Líklega hefur hann borist með verslunarleiðum milli landsvæða. Svo mannskæður var faraldurinn að hann setti samfélög víða í mikið uppnám. Ótti greip eðlilega um sig.
Í áratugi hafa vísindamenn reynt að ráða gátuna um uppruna hans og ýmsar tilgátur verið settar fram. Nú telur hópur vísindamanna, sem birta niðurstöður sínar í grein í vísindatímaritinu Nature, sig hafa komist eins nálægt lausninni og hægt er í augnablikinu.
Með DNA-rannsókn á tönn tókst þeim að finna bakteríu sem er náskyld öðrum sem á eftir komu og staðfest er að ollu sjúkdómnum nokkrum árum síðar.
„Við höfum fundið upprunann í tíma og rúmi sem er í raun mjög merkilegt,“ hefur breska blaðið Guardian eftir Johannes Krause, prófessor við Max Planck-stofnuna í Leipzig. Stofnunin sérhæfir sig í þróunarfræði og mannfræðirannsóknum. Bakterían sem fannst er ekki aðeins formóðir afbrigða sem vitað er að ollu svarta dauða heldur einnig móðir afbrigða margra baktería sem enn finnast á jörðinni.
Vísindateymið kom fyrst saman er Philip Slavin, sagnfræðingur við Háskólann í Stirling, hafði uppgötvað skyndilegt og mikið mannfall á síðari hluta fjórða áratugs 14. aldar með rannsóknum á grafreitum í nágrenni stöðuvatnsins Issyk-Kul á svæði sem nú tilheyrir Kirgistan. Í görðunum voru hundruð legsteina á gröfum fólks sem látist höfðu á árabilinu 1248-1345. Það sem Slavin uppgötvaði var að mjög margir sem grafnir voru i görðunum höfðu látist á aðeins tveimur árum; 1338-1339. Á sumum steinunum stóð að dánarorsök hafi verið „mawtānā”, sem er fornsýrlenskt orð yfir drepsótt.
Frekari rannsókn Slavin leiddi svo í ljós að um þrjátíu beinagrindur hefðu verið grafnar upp á níunda áratug átjándu aldar. Slavin og samstarfsmenn hans köfuðu ofan í dagbækur þeirra sem stóðu að uppgreftrinum og komust að því hvar líkamsleifarnar væri að finna. Þegar það lá fyrir tóku aðrir vísindamenn við keflinu og hófu að gera DNA-rannsóknir. Í því teymi voru m.a. Krause og Maria Spyrou, prófessor við Tübingen-háskóla í Þýskalandi.
Rannsökuðu líkamsleifar sjö eintsaklinga
Krause, María og félagar gerðu rannsóknir á tönnum úr sjö manneskjum sem höfðu verið grafnir í görðunum við vatnið. Þeim tókst að einangra bakteríu sem veldur eitlabólgu (kýlaveiki) úr þremur þessara einstaklinga. Sú baktería var greind og eins og fyrr segir komust vísindamennirnir að því að hún væri formóðir baktería sem ollu svarta dauða í Evrópu átta árum síðar.
Teymið komst ennfremur að því að nánasti „ættingi“ þessarar bakteríu væri að finna í nagdýrum á þessu sama svæði. Fólk getur enn þann dag í dag sýkst af eitlabólgu en þar sem hreinlæti er mun betra nú en fyrir nokkrum öldum og færri eru í miklu og tíðu nábýli við rottur hefur það komið í veg fyrir að bakterían nái að stökkbreytast í mönnum og valda skæðum faröldrum líkt og hún gerði áður fyrr.
„Það sem við fundum í tengslum við grafreitinn var formóðir nokkurra afbrigða [sem ollu svarta dauða] og þess vegna er þetta eins og stóri hvellur plágunnar,“ sagði prófessorinn Krause á blaðamannafundi þar sem niðurstöðurnar voru kynntar.
Farsóttin sem síðar var kölluð svarti dauði (á latínu mors nigra) gekk yfir Evrópu um miðja 14. öld og er áætlað að um einn fjórði til þrír fjórðu hlutar íbúa álfunnar hafi látist. Þessi tiltekni faraldur pestarinnar barst ekki til Íslands, sennilega vegna þess að þeir sem höfðu sýkst í Noregi, þaðan sem mest var siglt til landsins á þeim tíma, hafa dáið í hafi áður en þeir náðu til Íslands, segir í ítarlegri grein á Vísindavefnum um svarta dauða. Síðan féllu samgöngur fljótt niður vegna þess að þeir Norðmenn sem lifðu eftir hafa haft meira en nóg að sýsla heima fyrir. Að sögn annáls sigldi ekkert skip til Íslands árið 1350.
Eftir að þessi faraldur gekk yfir var pestin landlæg víða í Evrópu, og minni háttar faraldrar gengu næstu aldirnar allt fram á 18. öld, stundum á nokkurra áratuga fresti. Tveir slíkir faraldrar náðu til Íslands, sá fyrri gekk hér á árunum 1402–04, sá síðari 1494–95.
„Um smitleiðir pestarinnar höfðu menn lengi þá skoðun að hún liði yfir landið eins og þokumóða, og voru til sögur um hvernig fólk hefði séð hana nálgast úr fjarska,“ stendur á Vísindavefnum. En um aldamótin 1900 kom upp afar mannskæð kýlapest í Kína og Indlandi, svo mannskæð að fljótt var giskað á að þarna væri á ferð sami sjúkdómur og hafði verið kallaður svarti dauði.
Lengi voru smitleiðirnar mikil ráðgáta, en eftir nokkurra ára rannsóknir kom í ljós að hann smitaðist ekki beint frá manni til manns heldur á milli manna með flóm sem lifðu aðallega á rottum. „Þegar rotturnar drápust úr pestinni leituðu flærnar á menn til að seðja hungur sitt og smituðu þá í leiðinni,“ segir á Vísindavefnum.
Lungnapest?
Skömmu síðar kom svo í ljós að sami sjúkdómur gat líka gengið frá manni til manns sem lungnapest og var þá ennþá mannskæðari, drap nánast alla sem veiktust. „En engu er líkara en að vísindaheimurinn hafi verið svo stoltur af ráðningu sinni á smitleið kýlapestarinnar að haldið var dauðahaldi í að þannig hlyti miðaldaplágan í Evrópu að hafa smitast.“
En síðustu áratugi hefur þeirri skoðun vaxið fylgi í Evrópu að svarti dauði hafi frá upphafi gengið sem lungnapest um álfuna.
Um fyrri faraldurinn, sem gekk yfir Ísland í upphafi fimmtándu aldar, segir á Vísindavefnum að erfitt sé að áætla mannfallið þar sem enginn viti hve margir Íslendingar voru á þessum tímum. En ef gert er ráð fyrir að þeir hafi verið um 50.000 fyrir pestina, eins og þeir voru þegar fyrsta manntalið var tekið 1703, hafa mögulega um 25.000 manns fallið.
Í síðari faraldrinum við lok fimmtándu aldar eru líka til heimildir um að helmingur fólks í landinu hafi týnt lífi vegna pestarinnar.