Tæplega þrír fjórðuhlutar allra viðskipta sem áttu sér stað í Kauphöllinni í dag voru með bréf í Íslandsbanka. Heildarvirði viðskiptanna nam 5,4 milljörðum króna, en þeir sem tóku þátt í hlutabréfaútboði bankans sem lauk í síðustu viku hafa nú fengið tæplega 20 prósenta ávöxtun á bréfum sínum.
Þetta kemur fram í yfirlitstölum á Markaðsvakt Keldunnar eftir lokun markaða. Samkvæmt þeim lækkaði hlutabréfaverð í níu skráðum félögum í dag, en lækkunin nam yfir einu prósenti í Marel, Arion og Icelandair. Mest lækkuðu hlutabréfin í Icelandair, en þau eru nú 3,8 prósentum lægri en þau voru við opnun markaða í morgun.
Heildarvirði viðskipta í Kauphöllinni nam 8,2 milljörðum króna, en þar af voru um 65 prósent með bréf í Íslandsbanka. Alls voru 838 viðskipti skráð með bréf í bankanum, en heildarfjöldi viðskipta í Kauphöllinni í dag var 1.155.
Líkt og Kjarninn hefur greint frá var níföld eftirspurn eftir bréfum í Íslandsbanka í hlutafjárútboði bankans sem lauk á þriðjudaginn í síðustu viku. Í útboðinu var um 35 prósenta hlutur í bankanum seldur á 79 krónur á hlut, sem voru efri mörk útboðsverðsins.
Verð á hlutum í Íslandsbanka nema nú 94,6 krónum á hlut, sem er tæplega 20 prósentum hærri en útboðsgengið. Heilsöluandvirði útboðsins nam 55,3 milljörðum króna, sem er rúmlega tíu sinnum meira en andvirði viðskipta með bréf í bankanum var í Kauphöllinni í dag.